Umbra stígur skref 2 og 3
Umbra – þjónustumiðstöð Stjórnarráðsins, áður Rekstrarfélag Stjórnarráðsins, hefur nú fengið viðurkenningu fyrir að stíga skref 2 og 3. Innleiðing Grænu skrefanna hefur gengið smurt fyrir sig hjá Umbru, enda umhverfisstarf þegar hafið hjá stofnuninni er hún skráði sig til leiks í verkefnið. Umbra sinnir upplýsingatæknimálum og ýmsum sameiginlegum rekstrarþáttum ráðuneytanna og hefur því tækifæri til að knýja fram mikilvægar breytingar í rekstri Stjórnarráðsins. T.a.m. hefur verið tekin ákvörðun um að skipta öllum ráðherrabílum og snattbíl stofnunarinnar út fyrir rafbíla á næstu tveimur árum. Góð snyrtiaðstaða er fyrir starfsfólk sem kemur hjólandi og gangandi til vinnu og jafnframt hefur starfsfólk aðgang að tveimur rafhjólum sem þeim býðst að fá að láni í allt að 3 daga í viðleitni til að kynna hjólin fyrir starfsmönnum og hvetja til notkunar þeirra. Umbra er að mestu leyti plastpokalaus stofnun og auk þess að notast við lífbrjótanlega poka fyrir lífrænan og blandaðan úrgang hafa þau brugðið á það ráð að kaupa fjölnota poka undir pappír. Samkvæmt Grænu bókhaldi var endurvinnsluhlutfall Umbru 72% fyrir árið 2018 og verður spennandi að sjá hvort hlutfallið verði ekki enn hærra fyrir árið 2019. Til hamingju með glæsilegan árangur og metnaðarfullt umhverfisstarf starfsfólk Umbru!
Birgitta Steingrímsdóttir, starfsmaður Umhverfisstofnunar, og starfsmenn Umbru, þau Sigurlaug Bjarnadóttir, Ólafur Páll Jónsson og Kristbjörn Þór Þorbjörnsson, sem skipa umhverfisteymi stofnunarinnar.
Sniðug lausn hjá Umbru – fjölnota pokar í flokkunartunnurnar.