3. og 4. skrefið í höfn hjá Ríkiskaupum

Ríkiskaup hafa nú fengið viðurkenningu fyrir að ljúka innleiðingu á skrefi 3 og 4. Ríkiskaup voru með fyrstu stofnunum til að skrá sig til leiks í verkefnið árið 2014 og hefur markvisst verið unnið að umhverfismálunum þar allar götur síðan. Stofnunin hefur lagt sig fram við að fræða starfsmenn um umhverfismál en ekki síður að fræða viðskiptavini sína um vistvæn innkaup sem eru auðvitað mikilvægur þáttur í Grænu skrefunum.

Halla Rún Friðriksdóttir, Hallgrímur H. Gröndal og Halldór Ó. Sigurðsson hjá Ríkiskaupum, Birgitta Steingrímsdóttir frá Umhverfisstofnun og Egill Skúlason hjá Ríkiskaupum.

Við höfum oft tekið Ríkiskaup sem dæmi þegar við tölum um frábæran árangur í samdrætti í pappírsnotkun en frá árinu 2011 hefur hún dregist saman um 82% – úr 33,7 kg/stöðugildi árið 2011 niður í 6,1 kg/stöðugildi árið 2019. Frábær árangur!

Næst á dagskrá hjá Ríkiskaupum er að keyra vinnu við 5. og síðasta skrefið af stað og eins og kemur fram á heimasíðu þeirra, „halda átrauð áfram að sinna öflugu umhverfisstarfi, huga að umhverfinu og vistvænum úrræðum í öllum þáttum starfseminnar og hvetja til vistvænna innkaupa.“

Til hamingju Ríkiskaup með áfangann!

Sjá frétt um málið á heimasíðu Ríkiskaupa.