Þrír plastpokar á fimm vikum
Undanfarið hefur umræða um skaðsemi plasts stóraukist, en plast getur valdið mjög neikvæðum áhrifum á heilsu og umhverfi. Lengi hefur verið vitað um þörf þess að draga úr notkun plasts en þróunin hefur verði þveröfug.
Umhverfishópur Stykkishólms fékk í ársbyrjun styrk frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu til að ráðast í tilraunaverkefni sem felur í sér að gera Stykkishólm að burðarplastpokalausu sveitarfélagi. Verkefnið er unnið í samstarfi við Náttúrustofu Vesturlands, Landvernd, Umís/Environice og Stykkishólmsbæ.
Í september síðastliðnum steig Stykkishólmur mikilvægt skref í umhverfismálum þegar bærinn ákvað í samstarfi við verslunar og þjónustufyrirtæki bæjarins að útrýma notkun plastpoka. Flestar verslanir í bænum hafa hætt sölu á plastpokum alfarið. Sumar verslanir hafa ekki útrýmt plastpokum en hafa í staðinn boðið uppá umhverfisvæna poka. Að sögn bæjarbúa og verslunareigenda hefur verkefnið gengið vonum framar og seldust til að mynda aðeins þrír plastpokar verið seldir í ÁTVR á fyrstu fimm vikum átaksins.