Græn skref og Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs

Þann 29. október síðast liðinn hlaut Reykjavíkurborg Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2014. Rökstuðningur dómnefndar á valinu var að markvisst og víðtækt starf að umhverfismálum hefði leitt til góðs árangurs á mörgum sviðum, til að mynda umhverfisvænnar nýtingar á neysluvatni, jarðvarma til húshitunar og rafmagnsframleiðslu úr jarðvarma. Verkefni eins og Græn skref í starfsemi Reykjavíkurborgar hafi einnig skipt máli. 

 

Verðlaunaafhending var í Stokkhólmi og nemur verðlaunaféð um 350 þúsund danskra króna. Það var verðlaunahafi síðasta árs, Selina Juul, sem afhenti verðlaunin í ráðhúsinu í Stokkhólmi.

Nú hafa Grænu skrefin verið aðlöguð að ríkisrekstri og verða því fleiri og fleiri sem geta stigið þessi einföldu og aðgengilegu skref. Til hamingju Reykjavíkurborg með þennan heiður og takk fyrir verkfærið Græn skref.