Neyslan er fíkn sem við viljum ekki láta lækna okkur af
Voru orð Stefáns Gíslasonar umhverfisstjórnunarfræðings í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2. Tilefnið var útgáfa skýrslu loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna sem sendi mjög skýr skilaboð um að tafarlausra aðgerða væri þörf af hendi stjórnvalda í heiminum. Í raun sé ástandið enn alvarlegra en menn hafi áður haldið fram og nauðsynlegt sé að halda hlýnun jarðar undir 1,5° en ekki 2° eins og áður. Fari hlýnun upp fyrir 2° þá mun hættan á enn öfgakenndari flóðum, hitabylgjum, skógareldum, þurrkum aukast svo ekki sé minnst á aukna fátækt fyrir hundruði milljóna manns. Skýrslan byggir á rannsóknum 90 vísindamanna frá 40 löndum um hættuna sem stafar af hlýnun jarðar.