Slökkva eða ekki slökkva á tölvubúnaði?

Skiptir máli að slökkva á tölvum og tækjum þegar við hættum notkun á þeim? Hversu lengi þarf ég að vera í burtu til að það borgi sig að slökkva á tölvunni? En skjánum? Svarið í stuttu máli er að öll tæki nota rafmagn og því ættum við öll að finna leiðir til að draga sem mest úr óþarfa notkun. Það getur munað einhverju á rafmagnsreikningi heimilisins þegar við slökkvum á öllum tækjum sem ekki eru í notkun en munurinn verður enn sýnilegri þegar um stóra vinnustaði er að ræða. Hér má til dæmis taka tölvur sem dæmi en þar þarf að hugsa um nokkur atriði:

1. Við innkaup, vertu viss um að tækin séu með vottun um góða orkunýtingu s.s. Energy Star eða TCO
2. Ekki nota skjáhvílu (screensaver), þá er skjárinn í raun og veru í notkun og eyðir þannig orku
3. Hafðu tölvurnar stilltar á biðstöðu þegar þær eru ekki í notkun t.d. eftir 20 mín og skjáir eftir 15 mín.
4. Slökktu á tölvuskjánum að minnsta kosti í lok dags.

Mýtur um að slökkva og kveikja á tölvubúnaði:
1. Fer illa með tækjabúnað þegar slökkt er á tölvum á hverjum degi eða að tölvur fari í svefnham eftir 30 mín? Svarið er nei, það þarf að slökkva mun örar á þeim til að það hafi áhrif og yfirleitt er eitthvað annað ónýtt í tölvunum áður en það að slökkva og kveikja á þeim fer að hafa áhrif.
2. Fer ekki meiri orka í að kveikja alltaf uppá nýtt á tölvunum? Nei það fer ekki meiri orka í það að kveikja á tölvunni á morgnana heldur en að láta hana ganga án notkunar í til dæmis yfir nótt.
Tæki sem eru í svokallaðri biðstöðu eða „stand- by“ eru að eyða rafmagni án þess að við séum að nota tækin, sem skilar sér í hærri reikningi fyrir heimili, fyrirtæki og stofnanir
Stöku sinnum heyrum við á Íslandi „af hverju á ég að spara orku, orkan okkar er græn“ Jú orkugjafarnir okkar eru endurnýjanlegir en það þýðir ekki að umhverfisáhrif framleiðslunnar séu engin né réttlætir það sóun. Ef við tökum virkjanir með uppistöðulóni sem dæmi, þá fylgja slíkum framkvæmdum og rekstri ýmis neikvæð umhverfisáhrif s.s. röskun á landi, vistkerfum, bygging og rekstur mannvirkja svo fátt eitt sé nefnt.