Eigin ræktun dregur úr umhverfisáhrifum og eykur áhuga starfsfólks

ÁTVR útbjó í vor matjurtagarð á lóð fyrirtækisins aðallega til að auka sjálfbæra hugsun starfsmanna. Ýmsar matjurtir voru gróðursettar s.s. kartöflur, rófur, kál, rabarbari og kryddjurtir. Matjurtirnar hafa síðan verið nýttar í matargerð í mötuneyti þeirra. Starfsmönnum fannst einnig skemmtilegt að horfa á eigin ræktun vaxa og fá að borða hana í lokin. Verkefnið hefur gengið svo vel að ÁTVR ætlar að stækka matjurtagarðinn og fjölga tegundum sem þau rækta næsta vor. Það þarf samt sem áður ekki endilega lóðir og garða til að rækta en starfsmenn neytendateymis Umhverfisstofnunar prufuðu að rækta tómata, chilli og gúrkur í glugga einnar skrifstofunnar í sumar. Aðrir starfsmenn voru mjög áhugasamir og komu reglulega að kíkja á ræktunina og fengu líka smakk 🙂

Ýmis konar ávinningur er af því að rækta eigin matvæli svo sem aukin meðvitund um umhverfismál og sjálfbærni. Að geta ræktað eigin jurtir dregur úr umhverfisáhrifum vegna pökkunar, efnanotkunar og flutnings matvæla, auk þess sem það gefur mikla gleði.