Minnkum plastpokanotkun
Starfshópur á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytis hefur skilað inn til ráðherra, tillögum um aðgerðir til að draga úr plastpokanotkun. Hér má sjá skýrsluna í heild sinni en í mjög stuttu máli þá eru markmiðin í samræmi við ESB tilskipun þar sem fram kemur að fyrir 2019 verði búið að fækka burðarplastpokum í 90 stk á hvern íbúa og 40 stk árið 2025. Verslunin tók vel í þessar hugmyndir og ætlar að gera breytingar á núverandi Pokasjóð og sinna í gegnum hann fræðslu og kynningu á verkefninu, ásamt því að styrkja aðila sem sinna umhverfismálum. Umhverfisstofnun mun hafa fulltrúa inni í nýjum Pokasjóði. Umhverfisstofnun er þegar orðin plastpokalaus stofnun og reyndist það auðveld aðgerð. Lykilatriðið er að flokka úrganginn vel og mikið og nota ekki poka undir flokkaðan úrgang. Almennt sorp og lífrænt fer síðan í lífræna poka. Sorptunnur inni á salernum eru einnig með lífrænum pokum en pokar þar eru aðeins teknir eftir þörfum. Starfsmenn UST eru síðan hvattir til að nota margnota poka fyrir verslun og lífræna hafi þeir ekki margnota meðferðis.