Græn skref

 

Græn skref eru leið fyrir opinbera aðila til að vinna markvisst að umhverfismálum eftir skýrum gátlistum og fá viðurkenningu eftir hvert skref. 

Hvernig get ég verið með?

Við bjóðum Háskólann á Akureyri velkominn til leiks. Hjá skólanum starfa 205 manns og eru tæplega 2500 nemendur skráðir þar til náms. Skólinn hefur verið leiðandi í uppbyggingu fjarnáms á Íslandi og spilað stórt hlutverk í að mennta fólk óháð búsetu og öðrum aðstæðum sem geta staðið í vegi fyrir staðarnámi. Við í Grænu skrefunum hlökkum mikið til koma að eflingu umhverfisstarfs Háskólans!
 

Velkomin til leiks Byggðastofnun

Byggðastofnun hefur nú skráð sig í Grænu skrefin. Stofnunin er staðsett á Sauðárkróki og þar starfa 27 manns. Hlutverk Byggðastofnunar er að efla byggð og atvinnulíf með sérstakri áherslu á jöfnun tækifæra allra landsmanna til atvinnu og búsetu. Við erum spennt fyrir samstarfinu og bjóðum Byggðastofnun velkomna til leiks!
 
Nýjasti þátttakandinn í Grænum skrefum er Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu en skólinn er jafnframt 10. framhaldsskólinn sem skráir sig til leiks í verkefnið. Það er alltaf jafn gaman að vinna með skólum þar sem metnaðurinn til að ná árangri í umhverfismálum er oftast mikill og mýmörg tækifæri til staðar til að virkja nemendur til góðra verka. Við hlökkum til samstarfsins!
 

Nýr þátttakandi í Grænu skrefunum

Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf, Kadeco, hefur nú skráð sig til leiks í Grænu skrefin. Kjarnaverkefni félagsins er að leiða þróun á landi ríkisins sem umlykur flugverndarsvæði Keflavíkurflugvallar. Kadeco kemur að ýmsum verkefnum sem eiga það sameiginlegt að auka virði svæðisins. Fjórir starfsmenn starfa hjá félaginu og hlökkum við til að feta með þeim græna veginn.
 

Skógræktin stígur skref númer tvö

Allar starfsstöðvar Skógræktarinnar hafa nú fengið viðurkenningu fyrir að stíga annað Græna skrefið. Starfsfólki Skógræktarinnar er mjög umhugað um umhverfið og höfum við í Grænu skrefunum ekki síður lært af þeim en þau af okkur þegar kemur að umhverfismálunum. Öflug fjarfundarmenning er til staðar hjá stofnuninni sem er dreifð um allt land og fara t.a.m ýmis námskeið og fyrirlestrar fram á Teams. Með því sparast bæði tími, fjármunir og losun. Tjaldsvæði Skógræktarinnar á Vöglum og Hallormsstað bjóða gestum upp á flokkun úrgangs sem er frábært framtak sem fleiri tjaldsvæði um land allt mættu taka til fyrirmyndar. Nýtni og skapandi hugsun eru áberandi hjá Skógræktinni eins og sjá má á meðfylgjandi myndum þar sem nafnspjöld og aðrir munir eru búnir til úr afurðum skóganna. Á Mógilsá er lífrænn úrgangur jarðgerður á staðnum eins og á fleiri starfsstöðvum og kaffikorgurinn fær að fara beinustu leið út í skóg þar sem næringarefnin nýtast svo sannarlega.  
 

83 stofnanir skráðar til leiks

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) hefur nú skráð sig til leiks í Grænu skrefin. Stofnanir sem taka þátt í verkefninu eru því orðnar 83 talsins með yfir 290 starfsstöðvar um land allt. Íbúðalánasjóður og Mannvirkjastofnun sameinuðust undir nafni Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar í byrjun árs 2020. Sameiningunni er ætlað að stuðla að heildstæðri yfirsýn yfir húsnæðis- og mannvirkjamál á einum stað ásamt því að efla stefnumótun og framkvæmd húsnæðis- og mannvirkjamála til hagsbóta fyrir almenning. 105 manns starfa hjá stofnuninnu og hlökkum við mikið til umhverfissamstarfsins með þeim.
 
Í Grænu bókhaldi eru innbyggðir svokallaðir losunarstuðlar sem gera það að verkum að losun frá helstu uppsprettum gróðurhúsalofttegunda (GHL) í starfseminni reiknast sjálfkrafa. 
 
Starfsstöð Landsvirkjunar á Glerárgötunni á Akureyri hlaut á dögunum viðurkenningu fyrir fimmta og síðasta græna skrefið. Það er til fyrirmyndar hvað vel hefur gengið að innleiða skrefin hjá Landsvirkjun og hefur nú öll hefðbundin skrifstofustarfssemi fyrirtækisins lokið skrefunum. En þau láta ekki þar við sitja og eru nú þegar byrjuð á innleiðingu skrefanna á aflstöðvunum svo sem Blöndu- og Laxárvirkjun. 
 

Fjölbrautaskólinn í Garðabæ stigu 2 skref

Fjölbrautarskóinn í Garðabæ hlaut viðurkenningu fyrir fyrstu 2 grænu skrefin í síðustu viku á setningu Imbrudaga í skólanum. Þema daganna voru umhverfismál og margt áhugavert var í boði fyrir nemendur skólans af bæði fræðslu og vinnustofum, m.a. flutti Andri Snær Magnason fyrirlestur fyrir fullum sal nemenda, Umhverfisstofnun hélt fyrirlestur um matarsóun og Einar Bárðarson sagði frá Votlendissjóði og þeirra góða starfi. 
 

Annað skref Fjársýslu ríkisins

Fjársýsla ríkisins hlaut viðurkenningu fyrir annað græna skrefið um daginn. Vilborg Hólmjárn, sérfræðingur hjá Fjársýslunni, heldur utan um verkefnið af miklum myndarbrag og stefna þau á að taka þriðja skrefið með vorinu.Við óskum þeim innilega til hamingju með árangurinn!
 

Ný útgáfa af grænu bókhaldi

Nú er uppfært excel skjal græna bókhaldsins niðurhalanlegt undir liðnum Grænt bókhald hér á heimasíðunni. Helstu nýmæli eru að hægt er að reikna út losun gróðurhúsalofttegunda frá fleiri þáttum og gerðar voru ýmsar uppfærslur, ítarlegri leiðbeiningar og losunarstuðlar uppfærðir.
 
Embætti lögreglustjórans á Norðurlandi eystra fékk í desember 2019 afhenta viðurkenningu fyrir að hafa lokið innleiðingu á fyrsta Græna skrefinu - fyrst allra lögregluembætta. Allar lögreglustöðvar embættisins taka þátt í verkefninu af fullum krafti, en þær eru staðsettar á Akureyri, Dalvík, Húsavík, Siglufirði og Þórshöfn. Mikill hugur er í starfsfólki embættisins og metnaður til að gera vel í umhverfismálunum. Skilvirkri úrgangsflokkun hefur verið komið upp á öllum stöðvum og leiðbeiningar eru vel sýnilegar starfsmönnum eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Einnig hafa innkaup á ræsti- og hreinsiefnum verið tekin í gegn og umhverfisvottaðar vörur keyptar inn eins og hægt er. Þið eruð frábærar fyrirmyndir fyrir önnur lögregluembætti sem við hvetjum að sjálfsögðu til að skrá sig til leiks. Til hamingju með árangurinn! Sjá frétt RÚV um málið. 
 

Listasafn Íslands taka 2 skref í einu

Listasafn Íslands hlaut í dag viðurkenningu fyrir tvö fyrstu grænu skrefin. Innleiðing verkefnisins hefur gengið hratt og vel fyrir sig, enda hópurinn greinilega samstilltur og áhugasamur um umhverfismál. Við óskum þeim til hamingju með árangurinn og hlökkum til næstu skrefa með þeim!
 

Isavia í Keflavík með þrjú skref

Flugstöð Leifs Eiríkssonar, Þjónustuhús og Flugturn í Keflavík fengu í gær viðurkenningu fyrir að hafa lokið við þriðja Græna skrefið. Í Keflavík starfar öflug umhverfisdeild sem farið hefur fyrir innleiðingu Grænu skrefanna í starfseminni. Mikil áhersla hefur verið lögð á fræðslu til starfsmanna og rekstaraðila og að virkja þá til góðra verka. Sorpmálin hafa verið tekin föstum tökum og geta starfsmenn, rekstraraðilar og gestir flugvallarins flokkað sitt sorp. Starfsmenn umhverfisdeildar hafa lagt sig fram við að gera upplýsingar um flokkun eins skýrar og hægt er bæði með því að nota myndmál og þau tungumál sem töluð eru á vinnustaðnum. Hér má til að mynda sjá leiðbeiningar um flokkun eftir rýmum og ítarlegri leiðbeiningar og myndbönd hér. Í mötuneyti starfsmanna hafa diskar verið minnkaðir í viðleitni til að sporna við matarsóun og í nóvember síðastliðnum var matarsóun í mötuneyti mæld yfir þriggja vikna tímabil til að vekja starfsmenn til vitundar um umfang sóunar. Fróðlegt er að lesa umhverfiskaflann í ársskýrslu Isavia frá árinu 2018 en þar má kynna sér hvað fyrirtækið hefur verið að gera í umhverfis- og loftslagsmálum, hljóðvist og endurvinnslu. Við óskum Isavia á Keflavíkurflugvelli innilega til hamingju með árangurinn og hlökkum til að vinna áfram með þeim í Grænu skrefunum!
 

Vegagerðin á fullri ferð

Vegagerðin keyrir Grænu skrefin áfram af öryggi! Í desember sem leið hlaut þjónustustöðin á Akureyri viðurkenningu fyrir skref 2. og 3. og þjónustustöðin á Sauðárkróki fyrir að ljúka öðru skrefinu. Sóley Jónasdóttir fulltrúi grænna skrefa hjá Vegagerðinni á Norðursvæði heldur vel utan um verkefnið og hvetur starfsfólkið til dáða og heldur öllum vel upplýstum. Við umsjónarmenn verkefnisins sjáum hvað slíkt utanumhald er mikilvægt því það er í mörg horn að líta í umhverfismálunum.
 
Við bjóðum Landspítalann velkominn til leiks! Til að byrja með mun starfsstöð spítalans við Skaftahlíð innleiða skrefin en þar starfa 270 manns. Öflugt umhverfisstarf hefur verið unnið á Landspítalanum um árabil svo búast má við því að Grænu skrefin verði starfsfólki auðveld viðureignar. 
 
Við bjóðum Póst- og fjarskiptastofnun velkomna til leiks í Grænum skrefum. Hjá stofnuninni starfa 27 manns og hlökkum við til að vinna með þeim að umhverfismálunum. Með þessari skráningu eru 81 stofnun þátttakendur í verkefninu.
 

Lagafrumvarp sem tekur á plastvandanum

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur kynnt í samráðsgátt stjórnvalda drög að breytingum á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. "Verði frumvarpið að lögum munu nokkrar algengar gerðir af plastvörum verða bannaðar á Íslandi. Þetta eru t.d. plastdiskar, plasthnífapör, plaströr og bollar úr frauðplasti. Við getum svo vel notað aðra hluti í staðinn. Frumvarpsdrögin gera líka ráð fyrir að einnota plastbollar og -matarílát sem maður fær t.d. á skyndibitastöðum megi ekki lengur vera ókeypis", segir Guðmundur Ingi, umhverfisráðherra. Í frumvarpinu er einnig kveðið á um sérstaka merkingu sem tilteknar einnota plastvörur eiga að bera um meðhöndlun vörunnar eftir notkun og þau neikvæðu áhrif sem varan hefur berist hún út í umhverfið. 
 

Bílar ríkisins verða umhverfisvænir

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að innleiða nýja stefnu sem tryggir að ríkisstofnanir kaupi umhverfisvænni bíla en innleiðing vistvænni ökutækja er á meðal aðgerða á aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Með aðgerðunum má draga úr heildarlosun ríkisins vegna ökutækja á skömmum tíma. Að auki er rekstrarkostnaður vistvænna bifreiða lægri og heildarlíftímakostnaður og vistferilskostnaður tækjanna minni. Sjá nánar á vef Stjórnarráðsins
 

Umbra klárar 4. skrefið

Umbra - þjónustumiðstöð Stjórnarráðsins hefur nú stigið 4. Græna skrefið en einungis tveir mánuðir eru síðan þau fengu viðurkenningu fyrir skref 2 og 3. 80% af úrgangi stofnunarinnar fer til endurvinnslu og í viðleitni til að draga úr myndun úrgangs er verið að koma fyrir handblásurum á flestum salernum, en með því dregur verulega úr notkun einnota handþurrka. 13 hleðslustöðvar fyrir rafbíla starfsmanna, 2 fyrir gesti og 5 fyrir ráðherrabíla eru staðsettar við Umbru - geri aðrir betur! Til lukku með árangurinn starfsfólk Umbru.