Græn skref

 

Græn skref eru leið fyrir opinbera aðila til að vinna markvisst að umhverfismálum eftir skýrum gátlistum og fá viðurkenningu eftir hvert skref. 

Hvernig get ég verið með?

Svanurinn og hringrásarhagkerfið

Ársfundur umhverfismerkisins Svansins fer fram á Grand Hótel Reykjavík þriðjudaginn 19. nóvember næstkomandi. Á fundinum verður áhersla á hringrásarhagkerfið, þau tækifæri sem liggja í því og hvernig Svanurinn styður fyrirtækin í þeirri vegferð. Við mælum eindregið með því að þátttakendur Grænna skrefa sendi fulltrúa á fundinn og fræðist um Svaninn, hringrásarhagkerfishugsunina, umhverfisstarf Krónunnar og viðhorf Íslendinga til umhverfis- og loftslagsmála. Opnunarávarp flytur Guðmundur Ingi, umhverfis- og auðlindaráðherra. Allir velkomnir - morgunverður í boði! Vinsamlegast skráið þátttöku til þess að koma í veg fyrir matarsóun hér: http://tiny.cc/ofa7fz. Fundinum verður streymt Facebook viðburðinum.
 

Nýtnivikan hefst laugardaginn 16. nóvember

Dagana 16.-24. nóvember næstkomandi stendur Evrópsk nýtnivika yfir en markmið átaksins er að hvetja fólk til að draga úr óþarfa neyslu, nýta hluti betur og draga þannig úr myndun úrgangs. Þema þessa árs er fræðsla og miðlun um úrgangsmál undir slagorðinu Minni sóun - minna sorp. Fyrirtæki, stofnanir og almenningur eru hvött til þess að fræðast um úrgangsmál og koma þeirri þekkingu í framkvæmd með því að breyta daglegum neysluvenjum sínum og draga þannig úr myndun úrgangs.
 
Flugstöð Leifs Eiríkssonar, Þjónustuhús og Flugturn í Keflavík luku nú í sumar við Grænt skref númer tvö. Allar átta starfsstöðvar Isavia sem skráðar eru í Grænu skrefin hafa nú stigið tvö skref en Flugfjarskipti kláruðu öll fimm Grænu skrefin fyrir ári síðan. Hjá Isavia er unnið mjög metnaðarfullt umhverfisstarf og er í nógu að snúast hjá starfsmönnum umhverfisdeildarinnar í Keflavík. Við óskum Isavia til hamingju með árangurinn!
 

74 stofnanir skráðar til leiks

Heilbrigðisstofnun Norðurlands hefur nú skráð sig í verkefnið og er þar með 74. þátttakandi Grænna skrefa. Hjá stofnuninni starfa 570 starfsmenn á starfsstöðvum  á Akureyri, Blönduósi, Dalvík, Fjallabyggð, Húsavík og Sauðárkróki.Við hlökkum til vegferðarinnar með Heilbrigðisstofnun Norðurlands.
 

Fyrsta skref Vinnumálastofnunar

Fyrsta Græna skrefið hefur nú verið stigið í höfuðstöðvum Vinnumálastofnunar í Reykjavík. Stefnan er svo sett á landsbyggðina í framhaldinu en starfsstöðvar stofnunarinnar eru staðsettar vítt og breitt um landið. Umhverfisteymi Vinnumálastofnunar hefur gengið vasklega til verks og lagt áherslu á að kynna verkefnið vel fyrir starfsmönnum og taka flokkunarmálin föstum tökum. Á döfinni hjá þeim er m.a. að fá kynningu frá Gámaþjónustunni svo þau geti lagt sig enn betur fram við flokkunina. Til hamingju með árangurinn Vinnumálastofnun og gangi ykkur vel með framhaldið! 
 

Umbra stígur skref 2 og 3

Umbra - þjónustumiðstöð Stjórnarráðsins, áður Rekstrarfélag Stjórnarráðsins, hefur nú fengið viðurkenningu fyrir að stíga skref 2 og 3. Innleiðing Grænu skrefanna hefur gengið smurt fyrir sig hjá Umbru, enda umhverfisstarf þegar hafið hjá stofnuninni er hún skráði sig til leiks í verkefnið. Umbra sinnir upplýsingatæknimálum og ýmsum sameiginlegum rekstrarþáttum ráðuneytanna og hefur því tækifæri til að knýja fram mikilvægar breytingar í rekstri Stjórnarráðsins. T.a.m. hefur verið tekin ákvörðun um að skipta öllum ráðherrabílum og snattbíl stofnunarinnar út fyrir rafbíla á næstu tveimur árum. Góð snyrtiaðstaða er fyrir starfsfólk sem kemur hjólandi og gangandi til vinnu og jafnframt hefur starfsfólk aðgang að tveimur rafhjólum sem þeim býðst að fá að láni í allt að 3 daga í viðleitni til að kynna hjólin fyrir starfsmönnum og hvetja til notkunar þeirra. Umbra er að mestu leyti plastpokalaus stofnun og auk þess að notast við lífbrjótanlega poka fyrir lífrænan og blandaðan úrgang hafa þau brugðið á það ráð að kaupa fjölnota poka undir pappír. Samkvæmt Grænu bókhaldi var endurvinnsluhlutfall Umbru 72% fyrir árið 2018 og verður spennandi að sjá hvort hlutfallið verði ekki enn hærra fyrir árið 2019. Til hamingju með glæsilegan árangur og metnaðarfullt umhverfisstarf starfsfólk Umbru!
 
Í dag hlaut embætti Héraðssaksóknara viðurkenningu fyrir að stíga fyrsta Græna skrefið. Það er mikill metnaður fyrir verkefninu innanhúss og starfar öflugt þriggja manna teymi að innleiðingu þess. Það sem skiptir ekki síður máli er stuðningur yfirstjórnar sem svo sannarlega er til staðar hjá Héraðssaksóknara og auðveldar allar breytingar. Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari, sagðist við afhendinguna í dag vona að Grænu skrefin stuðli að aukinni starfsánægju og bætti við að verkefnið geti leitt til minni rekstrarkostnaðar hjá embættinu. Starfsmenn embættisins hafa vakið athygli undanfarið þar sem þeir þeysast á milli staða á rafhlaupahjóli, en kaupin á því voru einmitt liður í Grænu skrefunum. Til hamingju með árangurinn og gangi ykkur vel með framhaldið!
 

Velkomin í hópinn, Fjársýsla ríkisins!

Fjársýsla ríkisins búin að stíga sitt fyrsta Græna skref! Þær Ragnheiður Gunnarsdóttir forstöðumaður og Vilborg Hólmjárn hafa umsjón með verkefninu og stefna á að klára annað skref fyrir áramót, enda góður stuðningur innhúss. Alveg til fyrirmyndar! 
 

Annað skref Hafrannsóknastofnunar

Við óskum Hafrannsóknastofnun til hamingju með að hafa lokið Grænu skrefi nr. 2 af 5. Lísa Anne Libungan á Uppsjávarlífríkissviði tók við skrefinu en hún situr í Umhverfisnefnd Hafró. Stofnunin sýnir vilja í verki og að eigin frumkvæði gróðursettu þau nú í vor 77 tré í Heiðmörk. Þar eiga þau reit sem þau kalla Brimgarð og gerðu starfsmenn og fjölskyldur sér glaðan dag, grilluðu og plöntuðu trjám með krökkunum sínum í yndislegu veðri. Framtakið verður endurtekið næsta vor!
 

Evrópsk samgönguvika er hafin

Evrópsk samgönguvika stendur yfir dagana 16.-22. september. Markmið vikunnar er að kynna íbúum í þéttbýli samgöngumáta sem allt í senn eru vistvænir, hagkvæmir og bæta heilsu fólks um leið og þeir hafa jákvæð áhrif á umhverfi og andrúmsloft. Við hvetjum stofnanir til nýta tækifærið þessa vikuna og kynna kosti vistvænna samgöngumáta fyrir starfsfólki sínu. Er einhver starfsmaður innanhúss sem getur deilt reynslu sinni af því að hjóla, ganga eða taka strætó í og úr vinnu? Væri hægt að fá kynningu á hjólasamgöngum í hádegismat eða á starfsmannafundi? Er hægt að setja upp keppni innanhúss, t.d. hvaða deild kemur oftast með vistvænum hætti til/frá vinnu þessa vikuna eða hvaða deild kemur með frumlegasta hætti til vinnu? Endilega virkjið hugmyndaflugið, klæðið ykkur vel og nýtið ykkur Evrópska samgönguviku til þess að upplifa kosti vistvænna samgöngumáta.
 

Öll skrefin í höfn hjá Landsvirkjun

Landsvirkjun hefur nú lokið við að innleiða öll fimm Grænu skrefin í höfuðstöðvum sínum á Háaleitisbraut. Greinilegt er að bakvið metnaðarfullt umhverfisstarf Landsvirkjunar er samstilltur og drífandi hópur af öllum sviðum rekstursins sem lætur verkin tala og velta við hverjum steini. Við óskum Landsvirkjun innilega til hamingju með áfangann!
 

Mötuneyti til fyrirmyndar

Það er gaman að sjá hvað mörg mötuneyti eru farin að vanda til verka þegar kemur að matarsóun, endurvinnslu og að bjóða uppá græna valkosti og þ.a.l. minnka framboð af rauðu kjöti. Í mötuneyti Landsvirkjunar á Háaleitisbraut stendur Ingvar Sigurðsson kokkur vaktina. Ingvar er snillingur í því að fullnýta hráefni og hann sér til þess að allur úrgangur sem fellur til í eldhúsinu sé rétt flokkaður til endurvinnslu. Ingvar býður starfsfólki að taka með sér afganga heim í margnota matarílátum sem það kemur sjálft með. En þá afganga sem eftir verða hikar Ingvar ekki við að nýta í nýjan og girnilegan rétt. Restar gærdagsins verða því kræsingar á ný! Einnig er gaman að segja frá því að vegan úrvalið í hlaðborðinu rýkur út og eftirspurnin eykst stöðugt. 
 
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og dómsmálaráðuneytið hafa nú innleitt fyrstu þrjú grænu skrefin á einu bretti. Ráðuneytin fengu afhenta viðurkenningu fyrir árangurinn í dag og voru að vonum stolt af sér og sínum. Við óskum ykkur til hamingju og gangi ykkur vel með framhaldið!
 
Með skráningu sinni er Heyrnar- og talmeinastöð íslands 72. stofnunin til að taka þátt í Grænu skrefunum. 22 starfsmenn starfa hjá Heyrnar- og talmeinastöðinni og hlökkum við mikið til að feta með þeim skrefin góðu. 
 

Nýr þátttakandi í Grænu skrefunum

Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu hefur nú skráð sig til leiks í Grænu skrefin. Hjá miðstöðinni starfa 24 manns í Hamrahlíð í Reykjavík. Við bjóðum Þjónustu- og þekkingarmiðstöðina hjartanlega velkomna til leiks! :)
 
Í starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs hafa umhverfismálin sannarlega verið sett á oddinn og hefur þjóðgarðurinn nú fengið viðurkenningu fyrir fyrsta Græna skrefið. Vatnajökulsþjóðgarður spannar rúm 14% af flatarmáli Íslands og er einn stærsti þjóðgarður í Evrópu. Starfsstöðvarnar átta sem hafa lokið fyrsta skrefinu eru staðsettar vítt og breitt um þjóðgarðinn en þær eru Fellabær, Gamlabúð, Gljúfrastofa, Kirkjubæjarklaustur, Mývatn, Skaftafellsstofa, Skaftárstofa og Snæfellsstofa. Starfsmenn eru vel upplýstir um umhverfismál enda eitt af markmiðum þjóðgarðsins að vernda náttúru hans. Áhersla er lögð á að draga úr umhverfisáhrifum t.a.m með umhverfisvænum ferðamátum, flokkun og endurnýtingu úrgangs og minni rafmagnsnotkun. Þjóðgarðurinn hefur sett sér metnaðarfullar stefnur þegar kemur að innkaupum og samgöngum og stuðlar þannig að bættu umhverfi og heilsu starfsfólks á sama tíma og umhverfisvitund gesta og starfsfólks er efld. Vatnajökulsþjóðgarður sýnir gott fordæmi fyrir aðrar stofnanir og óskum við þeim til hamingju með árangurinn!
 
Vinnumálastofnun hefur mikinn áhuga á að vinna markvisst að umhverfismálum í sínum rekstri og hefur því skráð sig til leiks í Grænu skrefin. Hjá stofnuninni starfa 150 manns á átta starfsstöðvum um land allt, en höfuðstöðvar stofnunarinnar eru í Reykjavík. Verið velkomin í hópinn!
 
Í dag fengu heilbrigðis- og félagsmálaráðuneyti viðurkenningu fyrir að hafa innleitt þriðja og fjórða Græna skrefið, einungis rúmu hálfu ári eftir innleiðingu fyrstu tveggja skrefanna. Umhverfismálin hafa verið tekin föstum tökum hjá ráðuneytunum og er verkefnið mjög sýnilegt innanhúss sem gerir starfsmönnum einfaldara fyrir að tileinka sér aðgerðir þess. Öflugt þriggja manna teymi fer fyrir innleiðingu Grænu skrefanna í ráðuneytunum tveimur og hafa þau m.a. staðið fyrir fræðslu um sorpflokkun og unnið að metnaðarfullum markmiðum um samdrátt í losun. Til hamingju með árangurinn!
 
Þjóðskjalasafn Íslands er 68. stofnunin sem stígur með okkur Grænu skrefin. Hjá stofnuninni starfa 35 manns á Laugarvegi 162. Við erum spennt fyrir samstarfinu og bjóðum Þjóðskjalasafn Íslands hjartanlega velkomið til leiks!
 

Skráning á matarsóun

Nú eru stofnanir farnar að huga að matarsóun bæði hvað varðar fræðslu og verkefni til að draga úr matarsóun í mötuneytum. Við höfum gert einfaldan skráningarlista yfir matvæli sem eru framleidd og matvæli sem fara í ruslið. Þá er líka hægt að gera athugun á því hversu mikið af mat sem er sóað er í raun og veru ætur. Þetta skjal mun hjálpa til við þessa útreikninga.