Vinnumálastofnun í Reykjavík stígur 2. skrefið
Nú fyrir helgi fékk Vinnumálastofnun í Kringlunni Reykjavík afhenta viðurkenningu fyrir að hafa innleitt skref 2. Afhendingin fór fram á Teams og þar kom fram hversu frábært það er að starfsmenn hafi náð að keyra verkefnið áfram á afar krefjandi tímum. Þið megið sannarlega vera stolt af ykkur! Í þessum fasa verkefnisins hefur verið lögð áhersla á skil á Grænu bókhaldi sem mun koma sér vel þegar stofnunin fer í þá vinnu að setja sér umhverfis- og loftslagsstefnu. Passað er upp á að ræsti- og hreinsivörur séu umhverfisvottaðar og góð flokkunaraðstaða er til staðar í öllum rýmum. Samkvæmt Grænu bókhaldi er endurvinnsluhlutfall Vinnumálastofnunar í Reykjavík tæp 70% sem er glæsilegur árangur!
Næst á dagskrá hjá stofnuninni er innleiðing á skrefi 3 samkvæmt nýja gátlistanum en einnig ætla starfsstöðvar Vinnumálastofnunar á landsbyggðinni að keyra verkefnið áfram. Fyrirhugaðir eru flutningar úr Kringlunni í nýtt húsnæði og þá gefst kjörið tækifæri fyrir stofnunina að útbúa aðstöðuna með helstu umhverfisáherslur sínar í huga. Við höfum einmitt tekið saman ítarefni sem nýtist öllum þeim sem eru að flytja í nýtt skrifstofuhúsnæði, sjá hér. Þar kemur fram að gott er að huga að orkusparnaði, flokkunaraðstöðu, rafhleðslu fyrir gesti og starfsfólk, aðstöðu fyrir hjólandi og gangandi og endurnýtingu svo eitthvað sé nefnt, þegar flutt er í nýtt húsnæði.
Innilega til hamingju með áfangann og gangi ykkur sem allra best með framhaldið!