Upptaka og glærur af kynningarfundi um loftslagsstefnur
Þann 23. september síðastliðinn buðum við til kynningarfundar um gerð loftslagsstefnu fyrir ríkisaðila, þ.e. ríkisstofnanir og fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkis. Samkvæmt lögum um loftslagsmálum (5.gr.c) ber ríkisaðilum að setja sér slíka stefnu fyrir árslok 2021.
Á fundinum kynntum við Grænu skrefin og hvernig gerð loftslagsstefnu á heima undir verkefninu. Þá fórum við yfir leiðbeiningar okkar um gerð loftslagsstefnu sem finna má hér á heimasíðu Grænna skrefa. Að lokum fengum við að heyra þrjú örerindi frá ÁTVR, Landsvirkjun og Seðlabanka Íslands; Sigurpáll Ingibergsson hjá ÁTVR deildi með okkur reynslu þeirra af fjárhagslegum ávinningi umhverfisstarfs, Jóna Bjarnadóttir hjá Landsvirkjun gaf okkur hagnýt ráð fyrir Græna bókhaldið og Telma Ýr Unnsteinsdóttir hjá Seðlabanka Íslands sagði okkur frá þeirra vinnu við gerð loftslagsstefnu.
Hér að neðan má sjá upptöku af fundinum og nálgast erindin á pdf formi.
Græn skref og Grænt bókhald – Birgitta Steingrímsdóttir
Leiðbeiningar Umhverfisstofnunar um gerð loftslagsstefnu – Ásdís Nína Magnúsdóttir
Þar sem það gafst ekki tími til að svara öllum spurningum sem bárust meðan á kynningunni stóð birtum við svörin við eftirstandandi spurningum hér:
Hvað er áætlað að það fari margir mannmánuðir í verkefnið á ári?
Það er mjög misjafnt eftir stofnunum. Þetta fer eftir stærð og umfangi starfseminnar og stöðunni á umhverfisstarfinu ykkar. Nú erum við hér á Umhverfisstofnun nýbúin að móta okkur nýja umhverfis- og loftslagsstefnu og tilheyrandi markmið og aðgerðaáætlun. Það voru aðallega tvær manneskjur í umhverfisráði sem sáu um þá vinnu í samráði við yfirstjórn og stóð hún yfir í ca 3 mánuði samhliða annarri vinnu, frá upphafi og þangað til allt var samþykkt af yfirstjórn og birt á vefnum. Við vorum auðvitað ekki að byrja okkar umhverfisstarf frá grunni, við höfum haldið Grænt bókhald frá árinu 2011 og verið með virka umhverfisstefnu og vottað umhverfisstjórnunarkerfi í mörg ár.
Einhver tips eða tricks til að fá stjórnendur til að fá áhuga á þessum málum?
Það er mjög sniðugt að fá okkur í heimsókn með fyrirlestur eða á fund með yfirstjórn. Þar getum við farið yfir þessi mál í sameiningu. Gerð loftslagsstefnu er auðvitað skylda samkvæmt lögum og þátttaka í Grænum skrefum fer mjög vel samhliða þeirri vinnu. Ávinningurinn af öflugu umhverfisstarfi er ótvíræður líkt og komið var inná í erindinu; við drögum úr neikvæðum umhverfisáhrifum starfseminnar, ímynd stofnunarinnar er bætt, ný þekking verður til, aðstaða fyrir starfsfólk verður betri og rekstarkostnaður lækkar. Oftar en ekki leiðir allt þetta til þess að starfsfólk sé ánægðara í vinnunni.
Hvað þurfa stofnanir að vera stórar til að fara í svona vinnu? Hvað með t.d. 5 manna stofnun?
Allar stofnanir þurfa að setja sér loftslagsstefnu, stórar sem smáar.
Teljið þið raunhæft að allar ríkisstofnanir nái öllum 5 skrefunum fyrir 1. júní 2021?
Við gerum okkur grein fyrir því að þetta er metnaðarfullt markmið og margar stofnanir ekki skráðar enn sem komið er. Hins vegar teljum við að það sé raunhæft að allar ríkisstofnanir og fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkis verði skráð í verkefnið og komin vel á leið í innleiðingarferli á þessum tíma.
Er einhver samráðsvettvangur aðila á ríkisstofnunum?
Já, við erum með Facebook hóp fyrir þátttakendur sem heitir Græn skref – samráðsvettvangur