Til hamingju FSU með 2. Græna skrefið!

Við óskum Fjölbrautaskóla Suðurlands innilega til hamingu með 2 Græna skrefið!

Til að ná 2 Græna skrefinu hefur FSU meðal annars keypt umhverfisvænar hreinsivörur og pappír, farið sparlega með rafmagn með því að skipta út venjulegum ljósaperum fyrir LED perur, og keypt inn umhverfisvænt kaffi (sem við vitum að var ekki lítil aðgerð, enda kennarar oft sólgnir í kaffi ;).

En kannski mikilvægast af öllum aðgerðum var algjör viðsnúningur í flokkunarmálum. Í raun væri hægt að kalla þetta byltingu. Þetta er framgangssaga sem sýnir hvernig maður getur á mjög stuttum tíma farið úr  23% endurvinnsluhlutfall yfir í 86% endurvinnsluhlutfall. Áður en FSU byrjaði í Grænu skrefunum hafði verið lítil áhersla á flokkun og þau í raun ekki mikið pælt í því. En svo var bara farið í að breyta þessu, og það sem skipti kannski mestu máli var að ruslið frá iðnnáminu, málmur og tré, fer núna allt beint í flokkun. Þetta hefur ekki bara verið gott fyrir umhverfið, heldur líka dregið verulega úr rekstrarkostnaði. Allir græða!

Áskoranir fyrir stofnunina eru að viðhalda þessum árangri í flokkuninni og halda dampi í verkefninu til að ná 5 skrefum fyrir árslok. Áður en þau byrjuðu í verkefninu voru engir með samgöngusamning, en núna verður boðið upp á samning og áhugavert að sjá hvort að fleiri ákveða að fara með vistvænum hætti í vinnuna.

Enn og aftur til hamingju, og vel gert!