Strætó hættir með pappírsmiða – munið að fá þeim breytt fyrir 31. mars
Strætó hættir að taka við pappírsmiðum í dag, 1. mars. Margir vinnustaðir á höfuðborgarsvæðinu hafa haft það sem reglu að eiga til pappírsmiða sem starfsfólk getur nýtt sér á vinnutíma, og þannig stuðlað að umhverfisvænni samgöngunotkun. Nú þarf að fara nýjar leiðir í þeim efnum, Strætó bendir á Klapp-tíuna sem er 10 miða kort sem ekki er bundið við ákveðna notendur og því hægt að lána út til starfsfólks eftir þörfum. Athugið að ekki geta fleiri en einn farþegi nýtt sér sama kortið á sama tíma, svo það gæti verið gott að hafa nokkur kort til umráða. Við hvetjum þátttakendur í Grænu skrefunum til að halda áfram að gera starfsfólki það einfalt að nýta sér strætó fyrir fundi og erindi á vinnutíma, og kynna sér nýtt greiðslufyrirkomulag.
Það er svo um að gera að láta ekki pappírsmiðana sem liggja í skúffum og skápum missa verðgildi sitt, en fram til 31. mars er hægt að skila pappírsmiðum inn til strætó og fá í staðinn inneign í gegnum Klapp-kerfið. Hér má finna leiðbeiningar frá Strætó um hvernig má gera það, til dæmis með því að senda bréfpóst með miðunum á móttöku Strætó.