Samstillt fimmta skref hjá Fiskistofu
Starfsmenn Fiskistofu lönduðu fimmta skrefinu fyrir helgi. Umhverfisnefnd Fiskistofu tók við skrefinu en í henni sitja fulltrúar frá öllum starfsstöðvum stofnunarinnar.
Fiskistofa hefur farið þá leið að allar starfsstöðvar eru samferða í gegnum hvert skref en hver starfsstöð fer í eigin úttekt á skrefunum. Þannig hefur skapast jákvætt andrúmsloft í kringum verkefnið sem einkennist af liðsheild og samheldni. Það varð snemma ljóst að slík nálgun á umhverfismálum er starfsmönnum Fiskistofu í blóði borin enda er það hlutverk stofnunarinnar að standa vörð um eina helstu auðlind þjóðarinnar – þá sömu og Grænu skrefunum er ætlað að vernda.
Við hjá Grænum skrefum kunnum starfsmönnum Fiskistofu bestu þakkir fyrir samstarfið og óskum þeim um leið til hamingju með fimmta skrefið.