Lögreglustjórinn á Vesturlandi lýkur við fimmta skrefið!
Á dögunum náði embætti Lögreglustjórans á Vesturlandi því frábæra afreki að klára öll fimm Grænu skrefin. Embættið var þar með fyrsta lögreglustjóraembættið til að klára öll skrefin og gerði það með glæsibrag. Liðin eru um tvö ár frá því að embættið hóf vinnu við Grænu skrefin en þau voru unnin rösklega í samstarfi umhverfisnefndar embættisins við ráðgjafafyrirtækið Environice.
Umhverfisnefnd embættis Lögreglustjórans á Vesturlandi samanstendur af fulltrúum frá öllum sex starfsstöðvum og hefur árangurinn því náðst með samhentu átaki um allt svæðið. Meðal stærstu aðgerðanna sem ráðist var í var að skipta bifreiðum embættisins út fyrir rafmagnsbíla, en í vor fékk embættið afhenta fyrsta sérútbúna, fjórhjóladrifna lögreglubílinn í Evrópu sem gengur fyrir rafmagni.
Áætlað er að losun gróðurhúsalofttegunda frá embættinu á þessu ári verði allt að 50% minni en árið 2020 og að samdrátturinn hafi náð 75% árið 2024, sem er vægast sagt glæsilegur árangur. Það hefur verið gaman að sjá hversu metnaðarfullt umhverfisstarf er rekið við embætti Lögreglustjórans á Vesturlandi og við óskum þeim innilega til hamingju með árangurinn.
Hægt er að lesa meira í umfjöllun í Skessuhorni og á vef Environice.