Kætumst meðan kostur er!

Stór hluti hugmyndafræði Grænna skrefa er að fagna hverjum áfanga og hvetjum við því alla þátttakendur til að gleðjast þegar skrefi er náð. Því miður hefur verið erfiðara að skipuleggja fögnuði undanfarna mánuði en okkar þátttakendur hafa heldur betur ekki dáið ráðalausir og sumir t.d. sent litla glaðninga til heimila starfsmanna sinna og aðrir notað fjarfundarforrit til að gleðjast saman.

Utanríkisráðuneytið náði skrefi 1 og 2 fyrr í vor en gafst ekki færi á að fagna saman fyrr en í síðustu viku þegar fjöldatakmarkanir voru rýmkaðar. Starfsmenn Grænna skrefa óska þeim kærlega til hamingju með árangurinn!

Við hvetjum alla þátttakendur til að virða takmarkanir í gildi og gæta vel að persónubundnum sóttvörnum en jafnframt að nýta tækifærið og fagna þeim áföngum sem hafa náðst á síðustu mánuðum nú þegar útbreiðsla er tiltölulega lítil hvort sem að það er í gegnum fjarfundarforrit eða í persónu.