Grænar gjafir
Á morgunverðarfundi Grænna skrefa spratt upp umræða um umhverfisvænar gjafir. Í þessu samhengi var til dæmis verið að velta því fyrir sér hvað væri græn jólagjöf frá vinnustaðnum til starfsmanna, þakklætisvottur til samstarfsaðila eða umhverfisvænn varningur eins og algengt er að gefa á t.d. ráðstefnum og kynningum (í dag er algengt að sjá buff, penna o.s.frv).
Í umræðunum spruttu upp allskonar tillögur að gjöfum svo sem fjölnota vatnsflöskur, umhverfisvottaðar vörur og út að borða á stað sem býður upp á grænkerafæði, leikhúsferð o.s.frv.
Í þessu samhengi er gott að hafa í huga að flestar vörur og afþreying hafa einhver umhverfisáhrif og því ágætt að spyrja sig hvort gjöfin komi raunverulega að gagni. Ef margir starfsmenn eiga t.d. vatnsflösku, fjölnota poka eða slíkt þá er það ekki endilega jákvætt fyrir umhverfið að eiga allt of mikið af þessum hlutum. Þá er gjafabréf í búð sem selur umhverfisvænar vörur kannski betri leið þar sem fólk velur það sem vantar.
Vilji stofnanir ganga lengra og gefa gjafir án nokkurra umhverfisáhrifa var nefnd ein mjög skemmtileg tillaga í umræðum á morgunverðarfundinum. Það er að gefa starfsmönnum auka frídaga í jólagjöf. Ónefndur yfirmaður á einum vinnustað nefndi að vinnutapið væri lítið þó aukafrídagur væri gefinn, enda líklegt að fólk væri með hálfum hug í vinnunni ef það er að vinna mikið um jólin. Í staðinn sé fólk líklegt að koma enn orkumeira til baka ef það fær almennilegt frí. Gjafakort hjá hjólaviðgerðaþjónustu eða í fataviðgerð er líka skemmtileg pæling!
Að auki kom fram sú hugmynd að hægt væri að styrkja gott málefni í nafni þeirra sem þiggja gjöfina. Jafnvel er hægt að ganga ennþá lengra og gefa gjafir með jákvæð umhverfisáhrif svo sem rótarskot til styrktar björgunarsveitanna eða kolefnisjöfnun.