Fjölbrautaskóli Suðurlands er kominn alla leið
Sá merkilegi atburður varð á Selfossi 4. maí að Fjölbrautaskóli Suðurlands lauk fimmta og síðasta Græna skrefinu. Olga Lísa, skólameistari, og Karl Ágúst, fulltrúi umhverfisnefndar, tóku við viðurkenningunni og sögðu frá þeim árangri sem náðst hefur í Grænu skrefunum. Þar má nefna stórbætta flokkun sorps meðal nemenda, áherslu á umhverfisvænni byggingarvið í verknámsgreinum, endurvinnslu sértæks úrgangs og talsverðan sparnað í hitunarkostnaði.
Skólinn hefur lengi lagt áherslu á samband manns og náttúru með verklegri og bóklegri kennslu í umhverfisfræði, sem er nú skyldufag í skólanum. Nemendur taka þátt í skógræktarstarfi á svæðinu og eiga fulltrúa í innra umhverfisstarfi skólans.
Við hjá Grænum skrefum óskum Fjölbrautaskóla Suðurlands innilega til hamingju með fimmta skrefið og óskum þeim góðs gengis við að viðhalda þeim fyrirmyndarárangri sem náðst hefur.