Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra kominn með 4 skref

Það er ekki amalegt þegar það er mikill gangur í Grænu skrefunum. Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra (FNV) skráði sig í verkefnið í lok september á 2020 og hefur á undraverðum tíma hlaupið í gegnum skrefin. Síðastliðinn desember voru þau orðin þrjú, og nú örfáum mánuðum seinna eru þau komin með 4. skref. Við höfum þessvegna fulla trú á því að þeim muni takast að klára 5. skrefið fyrir lok árs 2021, í samræmi við kröfurnar sem eru gerðar á ríkisaðila í loftlagsstefnu Stjórnarráðsins.

Til að taka skrefin hefur FNV meðal annars verið að taka sorpmálin í gegn, þau bjóða núna upp á vottað kaffi og te á kaffistofum, þeir sem sjá um innkaup passa upp á að kaupa umhverfismerktar vörur og bæði starfsmenn og nemendur fá reglulega fræðslu um umhverfismál og margt fleira.

Við óskum FNV innilega til hamingju með þennan fyrirmyndar árangur!