Félagsvísindasvið við HÍ hlýtur 3. Græna skrefið
Hvað gerir maður þegar stórfellt flóð flæðir yfir starfsstöð sem er í miðju kafi að klára Grænu skrefin? Þessari spurningu þurftum við að svara á dögunum. Það muna vafalaust flestir eftir dramatísku myndunum af vatnsleka sem átti sér stað á miðsvæði Háskóla Íslands þann 21. janúar í upphafi árs. Félagsvísindasvið var eitt af þeim sviðum háskólans sem missti aðstöðu sína vegna flóðanna. Þegar þetta átti sér stað var Félagsvísindasvið í miðjum klíðum að klára 2. og 3. Græna skrefið. Við hjá Grænu skrefunum ákváðum að þar sem þetta væri fordæmalaust, en ekki fordæmisgefandi, þá myndum við veita Félagsvísindasviði 2. og 3. Græna skrefið þrátt fyrir að vera ekki með neina starfsstöð eins og stendur. Enda hefur Háskóli Íslands um árabil unnið að því að innleiða Grænu skrefin í starfssemi skólans og Félagsvísindasvið skuldbindur sig að sjá til þess að aðgerðunum í Grænu skrefunum sé fylgt eftir í nýju húsnæði. Þó að það hafi vissulega verið skrítið að gera úttekt á stað án starfsstaðar þá er hægt að líta á skrefin sem hvatningu til þess að hafa umhverfismálin í huga strax frá byrjun. Með því erum við viss um að það náist bæði umhverfislegur ávinningur og að það spari tíma, peninga og fyrirhöfn.
Enn og aftur til hamingju Félagsvísindasvið við Háskóla Íslands fyrir að ljúka 2. og 3. Græna skrefinu.