5 skref á hálfu ári!
Starfsfólk Blöndu- og Laxárstöðvar, sem eru tvær af starfsstöðvum Landsvirkjunar, eru búin að stíga öll 5 Grænu skrefin á hálfu ári! Það er búið að vera gaman að sjá hvað starfsstöðvar í óvanalegri kantinum geta innleitt margar aðgerðir í umhverfismálum og finna lausnir sem henta þeim. Umhverfisteymið með þau Elvar Magnússon og Ragnheiði Ólafsdóttur í fararbroddi (sjá mynd) hafa leitt verkefnið áfram í góðri samvinnu við starfsfólk stöðvanna og augljóst að ekki vantar metnaðinn hjá fyrirtækinu. Til marks um það má nefna nokkur dæmi:
- Í Hjólað í vinnuna var hreinlega hjólað í kringum stöðina!
- Flokkun er í toppmálum, 80% + flokkun á úrgangi
- Pappírsrif er nýtt sem undirburður fyrir hesta í sveitinni
- Vel er staðið að innanhússfræðslu um umhverfismál og Grænu skrefin í gegnum kennsluvefinn Eloomi
- Búið er að mæla matarsóun í þó nokkurn tíma og í ljós kemur að hún er lítil sem engin, starfsmenn mega taka með sér afganga heima og helgarvaktirnar nýta líka afganga
- Innkaupagreining vakti menn til vitundar um hvar hægt er að draga úr og hvað annað megi frekar kaupa inn
- Með kaupum á vatns/sódavatnsvél hefur vatnsdrykkja aukist
- Tedrykkja hefur einnig aukist með flottu lífrænu te-safni
- Nú er boðið uppá niðurskorið grænmeti á fundum og vekur það lukku
Takk fyrir gott samstarf og innilega til hamingju með áfangann!