Grænu skrefin héldu árlegan morgunfund sinn á Grand-hóteli föstudaginn 5. nóvember sl., þar sem tengiliðum ríkisstofnana og fyrirtækjum í meirihluta ríkiseigu við verkefnið var boðið að taka þátt. Lögð var áhersla á loftslagsstefnur á fundinum, sem var vel við hæfi þar sem allar stofnanir ríkisins skulu setja sér loftslagsstefnu fyrir lok þessa árs.
Þátttaka fór fram úr vonum, en um 60 manns mættu í eigin persónu og um 50 manns tóku virkan þátt á Teams-fundi.
Kristín Helga Schiöth, starfsmaður Grænna skrefa, fór yfir skipulagningu umhverfisvænna viðburða þar sem hún sagði frá því hvað gert var til að draga úr umhverfisáhrifum morgunfundarins. Meðal annars var rætt um staðsetningu, val á aðstöðu, möguleikann á fjarfundarþátttöku, samskipti við gesti, veitingaval og úrgang. Við bendum á að Umhverfisstofnun hefur gefið út bækling um umhverfisvæna viðburði, sem stofnanir geta nýtt sér þegar kemur að skipulagningu funda, málþinga eða jafnvel árshátíða.
Eygerður Margrétardóttir verkefnastjóri hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga kynnti fyrir okkur Verkfærakistu Loftslagsvænni sveitarfélaga. Það er ánægjulegt að sjá og heyra að það eru ekki eingöngu ríkisstofnanir og fyrirtæki í meirihluta ríkiseigu sem eru að gera sér metnaðarfullar loftslagsstefnur heldur einnig sveitarfélögin. Öll róum við þannig í sömu átt að markmiðum okkar um minni losun.
Haukur Logi Jóhannsson verkefnastjóri hjá Staðlaráði fjallaði um ábyrga kolefnisjöfnun, en það er málefni sem brennur á mörgum sem vinna að Grænu skrefunum. Það er mikilvægt að vera viss um að raunveruleg kolefnisjöfnun eigi sér stað til lengri tíma þegar kolefnisjöfnunarverkefni eru valin, og við bendum á að Umhverfisstofnun hefur gefið út leiðbeiningar um ábyrga kolefnisjöfnun. Í erindi Hauks kom fram að tveir vinnuhópar séu nú að störfum við staðlavinnu svo hægt sé að samræma mælingar á losun fyrirtækja og útbúa samræmd viðmið, meginreglur og kröfur til loftslagsverkefna sem gefa sig út fyrir að kolefnisjafna. Enn sem komið er hefur ekkert íslenskt kolefnisjöfnunarverkefni verið vottað, en vonandi líður ekki á löngu þar til svo verður.
Það var sannkölluð vítamínsprauta á hlusta á Agnesi Brá Birgisdóttur frá Vatnajökulsþjóðgarði og Má Vilhjálmsson fyrrum rektor Menntaskólans við Sund ræða reynslu sína af innleiðslu Grænna skrefa. Þau koma frá ólíkum stofnunum að stærð og gerð og gátu því deilt ólíkri reynslu. Þó var nokkuð sammerkt með erindum þeirra, en bæði töluðu þau um mikilvægi þess að starfsfólk vinni saman að skrefunum, að forysta fari fram með góðu fordæmi og hversu nauðsynlegt það sé að líta í eigin barm og stunda stöðuga endurskoðun til að ná góðum árangri í loftslags- og umhverfismálum.
Fyrir utan erindin fór fram borðavinna þar sem tengiliðir unnu að hugmyndum um aðgerðir til að ná markmiðum um samdrátt í losun. Það var verulega ánægjulegt að sjá hversu öflugt fólk er á stofnunum og í fyrirtækjum í meirihluta ríkiseigu um allt land með feikna góðar hugmyndir.
Nánar má lesa um afrakstur borðavinnunnar hér og á næstunni munum við vinna efni út frá þeim spurningum sem okkur bárust fyrir, á og eftir fundinn.