Menntaskólinn við Sund klárar fyrstur allra menntaskóla!
Þann 5. febrúar síðastliðinn fékk Menntaskólinn við Sund fyrstur allra menntaskóla staðfestingu á því að hafa uppfyllt öll 5 Grænu skrefin. Afhending fór fram 9. febrúar og sjá má á mynd Sigrúnu Ágústsdóttur forstjóra Umhverfisstofnunar afhenda Má Vilhjálmssyni rektor skólans viðurkenningu fyrir þennan árangur.
Menntaskólinn við Sund er ekki bara fyrsti menntaskóli landsins til þess að klára öll Grænu skrefin heldur var hann einnig fyrstur til að setja sér og innleiða loftslagsstefnu, markmiðasetningu og aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.
Menntaskólinn við Sund var fyrsti menntaskóli landsins til þess að skrá sig í Grænu skrefin og hefur þeirra umhverfisstarf einkennst af ástríðu og virðingu fyrir umhverfinu. Skólinn hefur notið góðs af því að hafa frótt starfsfólk og áhugasama nemendur sem tryggja velgengni verkefnisins.
Már Vilhjálmsson komst svo að orði: ,,Í Menntaskólanum við Sund vorum við meðvituð um að við værum umhverfissóðar eins og flestir aðrir. Við sættum okkur hins vegar ekki við þá stöðu og ákváðum að gera bragarbót samhliða því að við færum í endurskoðun á allri starfssemi skólans, skipulagi hans, námskrá og áherslum í starfseminni.”
Umhverfisfræði hefur verið skyldufag fyrir alla nemendur frá árinu 2015 og er Menntaskólinn við Sund einnig þátttakandi Grænfánaverkefnisins sem er rekið af náttúruverndarsamtökunum Landvernd. Þessi verkefni eiga gífurlega vel saman í skólahaldi og hafa mörg jákvæð samverkandi áhrif og því til fyrirmyndar hjá Menntaskólanum við Sund að vinna þessi verkefni samhliða hvort öðru.
Umhverfisstofnun óskar öllum starfsmönnum og nemendur Menntaskólans við Sund kærlega til hamingju með þennan árangur og þakkar fyrir ánægjulegt samstarf yfir árin.