Landsvirkjun Mývatnssvæði klífa fimm skref í einu
Við viljum óska Landsvirkjun Mývatnssvæði með að hafa tekið fimm Græn skref. Landsvirkjun Mývatnssvæði á sérstakt hrós skilið fyrir að taka öll skrefin í einu.
Oft er sagt að það sé eins og að borða fíl að sinna umhverfisstarfi. Og hvernig borðar maður fíl? Jú einn bita í einu. Grænu skrefin eru hönnuð til þess að umhverfisstarf sé ekki yfirþyrmandi með því að skipta starfinu upp í skref. En Landsvirkjun Mývatnssvæði ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur, og tekur þetta allt í einni beit. Það sýnir hversu mikinn metnað starfssemin hefur fyrir umhverfisstarfi. Það sýnir líka hversu mikla og góða forvinnu Landsvirkjun hefur gert. Það er langt síðan Landsvirkjun byrjaði að leggja grunninn að umhverfisstarfi dagsins í dag. Það hefur eflaust fyrst um sinn verið erfitt, en núna er það starf farið að bera ávöxt.
En það fylgja því líka áskoranir að vera umhverfisvænn og vera með starfssemi á hálendinu. Grænu skrefin eru hönnuð fyrir týpíska skrifstofustarfssemi, en á hálendinu er kannski ekki mikil þörf á strætómiðum og góðum hjólabogum. Tæknin hefur heldur ekki náð það langt að rafræn tæki dugi í svo erfiðum aðstæðum. Því eiga sum atriði Grænu skrefanna ekki við, en við erum engu að síður sannfærð um að Landsvirkjun muni hafa augun opin fyrir þróun vistvænna tækja fyrir erfiðar aðstæður. Á meðan fylgist Landsvirkjun vel með notkun á jarðefnaeldsneyti og dregur úr öllum óþarfa.
Við óskum Landsvirkjun Mývatnssvæði enn og aftur, innilega til hamingju með þennan áfanga. Við viljum þakka Laufey Lilju Ágústsdóttur, tengilið Grænna skrefa, sem heldur svo samviskusamlega og vel utan um þetta verkefni. Við þökkum Hörpu Gunni Aðalbjörnsdóttur sem hefur haft umsjón með að koma Grænu skrefunum í verk á Mývatnssvæðinu. Einnig ber að hrósa Ragnheiði Ólafsdóttur sem á stóran þátt í því að leggja grunninn að umhverfisstarfi Landsvirkjunnar. Stjórnendur Landsvirkjunnar almennt, og á Mývatnssvæði, eiga þakkir skyldar því það er alltaf mikilvægt að hafa þeirra stuðning í Grænni vegferð. Að lokum þökkum við öllum starfsmönnum, því umhverfismál eru þannig að þau skila ekki árangri nema allir leggi hönd á plóg og geri sitt. Takk fyrir!