Þrjú græn skref í höfn hjá Héraðssaksóknara
Í september lauk embætti Héraðssaksóknara við innleiðingu á 3. græna skrefinu. Frá því að stofnunin skráði sig til leiks í verkefnið í maí 2019 hefur verið unnið skipulega að innleiðingu þess og er stefnan að ljúka við öll 5 skrefin fyrir júní 2021. Eins og svo margir hefur stofnunin þurft að laga sig að breyttum aðstæðum í samfélaginu og fara yfirheyrslur og skýrslutökur í auknum mæli fram í gegnum fjarfundarbúnað. Vonandi getur embættið nýtt sér þá lausn áfram þegar aðstæður leyfa eftir Covid og dregið þannig enn frekar úr kolefnisspori sínu. Sökum Covid gafst ekki tækifæri til að fagna áfanganum en það verður vonandi gert þegar starfsmenn mæta aftur til vinnu. Til hamingju!