Grænum skrefum í ríkisrekstri hleypt af stokkunum

Á morgunverðarfundi 26. nóv var verkefninu Græn skref í ríkisresktri formlega hleypt af stokkunum. Á fundinum voru gefin góð dæmi frá Landspítala og rætt um árangur stofnana sem hægt er að ná með einföldum aðgerðum.

 

 

Frá kynningu Grænna skrefa í ríkisrekstri. F.v. Elva Rakel Jónsdóttir, teymisstjóri hjá Umhverfisstofnun, Hrönn Hrafnsdóttir, verkefnastjóri Grænna skrefa hjá Reykjavíkurborg, Birna Helgadóttir, verkefnastjóri umhverfis- og samgöngumála hjá Landspítala og Magnús Guðmundsson, forstjóri Landmælinga Íslands sem var fundarstjóri.

Samkvæmt stefnu ríkisins um vistvæn innkaup og grænan ríkisrekstur skal minnka umhverfisáhrif opinberra innkaupa og aðstoða ríkisstofnanir við að grænka rekstur sinn og stuðla að sjálfbærri neyslu. Stofnanir og Reykjavíkurborg sem unnið hafa að umhverfismálum eru farin að sýna árangur til bættrar heilsu, minni rekstrarkostnaðar og minni umhverfisáhrifa. Græn skref Reykjavíkurborgar hafa verið aðlöguð fyrir ríkisrekstur og gefst nú öllum stofnunum kostur á að nýta sér Græn skref í ríkisrekstri, einfalt og aðgengilegt verkfæri. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Landmælingar Íslands og Skipulagsstofnun eru fyrstu ríkisstofnanirnar til að aðlaga starfsemi sína Grænum skrefum í ríkisrekstri. 

Gestir á kynningu Grænna skrefa í ríkisrekstri voru áhugasamir.