Allar stofnanir stígi Græn skref 2021
Það eru spennandi tímar í Grænu skrefunum og stefnir í að allar stofnanir verði komnar á fullt í umhverfisstarfi sínu á árinu. Stjórnvöld hafa lagt áherslu á að allar stofnanir ríkisins innleiði Græn skref í ríkisrekstri fyrir árslok 2021, eins og fram kemur bæði í loftslagsstefnu Stjórnarráðsins og í fjárveitingabréfi til stofnananna.
Í fjárveitingabréfi er þetta orðað þannig að ríkisaðilar skuli vinna stöðugt að því að efla vistvænan rekstur ríkisins og vinni meðal annars „að því að uppfylla öll fimm Grænu skrefin í ríkisrekstri á árinu í samræmi við skilyrði loftslagsstefnu Stjórnarráðsins. Stofnanir sem ekki hafi þegar skráð sig til þátttöku ljúki a.m.k. innleiðingu á skrefi tvö fyrir 1. júní 2021 og klári öll skrefin fimm fyrir árslok í samræmi við skilyrði stefnunnar.“
Þetta eru frábærar fréttir fyrir umhverfið og framtíðar kynslóðir auk þess sem það hefur jákvæð áhrif á vinnustaðaumhverfi að stíga skrefin.
Við bjóðum allar stofnanir velkomnar og bendum á að þær sem eiga eftir að skrá sig geti gert það á vef Grænna skrefa.