Nýtnivikan hefst laugardaginn 16. nóvember
Dagana 16.-24. nóvember næstkomandi stendur Evrópsk nýtnivika yfir en markmið átaksins er að hvetja fólk til að draga úr óþarfa neyslu, nýta hluti betur og draga þannig úr myndun úrgangs. Þema þessa árs er fræðsla og miðlun um úrgangsmál undir slagorðinu Minni sóun – minna sorp. Fyrirtæki, stofnanir og almenningur eru hvött til þess að fræðast um úrgangsmál og koma þeirri þekkingu í framkvæmd með því að breyta daglegum neysluvenjum sínum og draga þannig úr myndun úrgangs.
Á heimasíðu Umhverfisstofnunar má finna alls kyns upplýsingar og fróðleik um úrgangsmál, eins og tölfræði um úrgangsflokka og hvernig okkur gengur að uppfylla sett markmið, stefnu ríkis og sveitafélaga í úrgangsmálum, áhugaverðar upplýsingar um flokkun og endurvinnslu og almenna umfjöllun um neyslu og innkaup. Umhverfisstofnun stendur að viðburðum í tengslum við nýtnivikuna, bæði í Reykjavík og á Akureyri, og má nálgast allar upplýsingar um þá á Facebook síðu átaksins.
Við hvetjum að sjálfsögðu alla þátttakendur Grænna skrefa til að nýta sér nýtnvikuna og vekja athygli á málstaðnum. Hér að neðan eru hugmyndir að því hvað stofnanir geta gert en ítarlegri leiðbeiningar er að finna hér.