3 skref í höfn hjá Vatnajökulsþjóðgarði

Grænu maurarnir ásamt Birgittu Steingrímsdóttur frá Umhverfisstofnun

Í dag fékk Vatnajökulsþjóðgarður formlega afhenta viðurkenningu fyrir 3. Græna skrefið. 8 starfsstöðvar þjóðgarðsins taka þátt í innleiðingu verkefnisins og eru Grænu maurarnir eins og þeir kalla sig duglegir að hittast og fara yfir málin, en hópurinn samanstendur af tengiliðum hverrar starfsstöðvar. Umhverfismálin eru alls ekki ný af nálinni í Vatnajökulsþjóðgarði en eins og kom fram í afhendingunni þá hafa Grænu skrefin gefið starfsmönnum tækifæri til að skerpa á ýmsum málum enda umhverfismálin þess eðlis að við getum alltaf bætt okkur!

Starfsmenn Vatnajökulsþjóðgarðs standa sig afar vel í flokkun úrgangs og er flokkunaraðstaða í vinnurýmum og á gestastofum til fyrirmyndar. Helsti flöskuhálsinn varðandi úrgangsmálin eru tjaldsvæðin sem þjóðgarðurinn rekur en samkvæmt starfsmönnum eru lausnir varðandi flokkun á tjaldsvæðum í sjónmáli. Meðal þess sem lögð var áhersla á í 3. skrefinu var greining á raforku- og hitanotkun á öllum starfsstöðvum, umhverfisfræðsla til starfsmanna, innkaup á lífrænu kaffi og te og umhverfisvottuðum ræsti- og hreinsiefnum. Þó að ekkert mötuneyti sé rekið á vegum þjóðgarðsins leggja starfsmenn áherslu á að sporna gegn matarsóun m.a. með upplýsingagjöf og hafa auk þess innleitt eldað úr ísskápnum/frystinum á ákveðnum dögum sem er heldur betur skemmtilegt framtak!

Næst á dagskrá er 4. skrefið og eru Grænu maurarnir nú þegar farnir að skipuleggja innleiðingu þess.

Til hamingju með árangurinn starfsfólk í Fellabæ, Gömlubúð, Gljúfrastofu, Kirkjubæjarklaustri, Mývatni, Skaftafellsstofu, Skaftárstofu og Snæfellsstofu og gangi ykkur vel með framhaldið!