Virka samgöngusamningar?
Vistbyggðaráð bauð uppá áhugavert morgunspjall um samgöngusamninga þar sem spurningin var „virka þeir?“ Erindi frá fjórum aðilum má sjá hér. Hólmfríður Sigurðardóttir sagði frá reynslu Orkuveitu Reykjavíkur en þar eru 35% starfsmanna með samgöngusamning. Hulda Steingrímsdóttir greindi frá samningunum hjá Landspítalanum en þó að um 20% starfsmanna þar nýti sér slíka samninga þá ferðast um 40% þeirra með vistvænum hætti. Sesselja Traustadóttir sagði frá verkefninu Hjólavottun og Elín Vignisdóttir sagði frá reynslu Verkís. Fundarmenn voru sammála um að samgöngusamningar geta virkað sem hvati til þess að starfsmenn nýti sér umhverfisvænni samgöngumáta og þeir eru í raun nauðsynlegir. Síðan eru ákveðnir þættir sem hindra notkun umhverfisvænni samgöngumáta: strætóleiðir ekki hentugar, veðurfar, þarf að sinna fjölskyldu og skutli, meiri tími fer í slíkan ferðamáta og fleira. Verkefni dagsins er því að finna lausnir á því sem hindrar fólk í að nota umhverfisvænni samgöngur eins og að hækka styrkinn, bjóða uppá að starfsmenn geti skutlast í nauðsynleg erindi á vinnubíl á vinnutíma, að sá tími sem fer í ferðalögin verði skilgreind sem vinnutími og fleira.