Skref 1

37 AÐGERÐIR

UPPFYLLA ÞARF AÐ MINNSTA KOSTI 34 AF 37 AÐGERÐUM Í SKREFI EITT

RAFMAGN & HÚSHITUN

 • Við höfum yfirfarið og stillt orkunotkun tölva þannig að þær fari í viðbragðsstöðu (standby) eða svefnham standi þær ónotaðar í skemmri eða lengri tíma.
 • Ljósritunarvélar og prentarar eru stillt þannig að tækin fara í viðbragðsstöðu (standby) þegar þau hafa ekki verið í notkun í 20 mín.
 • Við notum ekki skjáhvílur (screensaver).
 • Allir starfsmenn slökkva á tölvum og skjám þegar þeir fara heim.
 • Við slökkvum á öllum ljósum í þeim rýmum sem eru ekki í notkun og öll ljós í lok dags. Sérstaklega er hugað að fundarherbergjum, geymslum og þar sem dagsbirtu nýtur við.
 • Við höfum komið fyrir áminningarmiðum við rofa og valdar útgönguleiðir þar sem minnt er á að slökkva ljós í lok dags og á raftækjum þegar þau eru ekki í notkun.

Flokkun & Minni sóun

 • Leiðbeiningar um flokkun eru sýnilegar öllum starfsmönnum. Öll ílát eru merkt með viðkomandi úrgangsflokki.
 • Við flokkum að lágmarki í fimm úrgangsflokka (t.d. pappír, plast, skilagjaldsumbúðir, bylgjupappa og málma) á kaffistofum, í mötuneytum og annars staðar þar sem úrgangur fellur til.
 • Við flokkum spilliefni eins og lög og reglur kveða á um, s.s. rafhlöður, prenthylki, málningarafganga, flúrperur og skilum til ábyrgrar förgunar.
 • Starfsmenn hafa verið upplýstir um flokkun og endurvinnslu til að tryggja að ætíð sé flokkað rétt.
 • Við prentum beggja megin á blöð. Prentun á báðar hliðar og í svart-hvítu er sjálfgild stilling á tölvum starfsmanna og við minnum starfsmenn reglulega á.
 • Við endurnotum pappír sem prentað er á öðrum megin.
 • Við prentara og ljósritunarvélar er slíkum pappír safnað og hann t.d. nýttur sem minnisblöð.
 • Við útgáfu kynningarefnis og annars efnis bjóðum við ávallt upp á rafræna útgáfu sem lesendur geta valið í stað pappírsútgáfu.

Viðburðir og Fundir

 • Við bjóðum upp á kranavatn en ekki vatn í einnota drykkjarumbúðum.
 • Á viðburðum okkar og fundum utan og innanhúss er einungis boðið upp á margnota borðbúnað (diska, rör, hrærur o.fl.).

Í kynningarefni um fundi eða viðburði á okkar vegum hvetjum við þátttakendur til að nota umhverfisvænni ferðamáta til og frá viðburðum (nefna dæmi).

Samgöngur

 • Það eru góðir hjólabogar fyrir starfsmenn og gesti fyrir utan vinnustaðinn.
 • Þegar farið er á fundi getur starfsfólk nálgast strætómiða á vinnustaðnum.
 • Við bjóðum upp á samgöngusamninga fyrir starfsfólk sem ferðast til og frá vinnu á hjóli, gangandi eða með strætó.
 • Við höfum hvatt starfsfólk okkar til að nýta sér umhverfisvænni ferðamáta til og frá vinnu, t.d. með fræðslufundum, kynningarefni eða með öðrum hætti (nefna dæmi).
 • Nýjir starfsmenn fá kynningu á þeim samgöngukostum sem í boði eru.
 • Við tökum þátt í átakinu Hjólað í vinnuna (átak fyrir hjólandi, gangandi og þá sem nota almenningssamgöngur).

Innkaup

 • Við íhugum vel þörfina áður en við kaupum inn t.d. hvort megi nýta betur, samnýta, fresta innkaupum eða gera við (nefna dæmi).
 • Innkaupafólk þekki type 1 umhverfismerkin og lífrænar vottanir.
 • Innkaupafólk stofnunarinnar tileinki sér vistvæn innkaup, þekki til vinn.is og noti rammasamninga með umhverfisskilyrðum og gátlista við smærri innkaup.
 • Við kaupum einungis umhverfisvottaðan prentpappír (umhverfismerki, type 1).
 • Við kaupum raftæki sem eru í A-flokki orkumerkinga eða hærra skv. orkuflokkum Evrópusambandsins.
 • Við skiptum einungis við umhverfisvottaðar prentsmiðjur.
 • Að lágmarki 80% almennra hreinlætis- og ræstivara okkar eru umhverfisvottaðar (umhverfismerki, type 1).

Miðlun og Stjórnun

 • Stofnunin heldur grænt bókhald og skilar inn til graenskref@graenskref.is fyrir 1. apríl ár hvert.
 • Stofnunin hefur sett sér markmið í grænu bókhaldi um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda vegna samgangna.
 • Við höfum skipað tengilið og teymi Grænna skrefa sem sér til þess að aðgerðir nái fram að ganga. Tengiliður sér um samskipti við verkefnisstjórn Grænna skrefa.
 • Við höfum kynnt Græn skref stofnunarinnar og stefnu ríkisins um vistvæn innkaup og grænan ríkisrekstur fyrir starfsmönnum okkar. Nýir starfsmenn fá allir slíka kynningu.
 • Stofnunin hefur sett sér umhverfisstefnu.
 • Hjá stofnuninni er gefið skýrt til kynna að verið sé að draga úr umhverfisáhrifum vegna rekstursins (hægt að nota tilbúið form á vefsíðu Grænna skrefa).
 • Starfsmenn okkar fá minnst 3 sinnum á ári sendar upplýsingar um umhverfismál í tölvupósti eða þær birtar þeim með öðrum hætti.
 • Við höfum látið húseiganda eða rekstrarfélag húseignar skriflega vita af umhverfisstarfi okkar og óskað eftir samstarfi um úrbætur í umhverfismálum t.d. aðstöðu fyrir flokkun úrgangs, aðstaða fyrir hjól eða lýsingu húsnæðis.