Græn skref

 

Græn skref eru leið fyrir opinbera aðila til að vinna markvisst að umhverfismálum eftir skýrum gátlistum og fá viðurkenningu eftir hvert skref. 

Hvernig get ég verið með?

Með skráningu sinni er Heyrnar- og talmeinastöð íslands 72. stofnunin til að taka þátt í Grænu skrefunum. 22 starfsmenn starfa hjá Heyrnar- og talmeinastöðinni og hlökkum við mikið til að feta með þeim skrefin góðu. 
 

Nýr þátttakandi í Grænu skrefunum

Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu hefur nú skráð sig til leiks í Grænu skrefin. Hjá miðstöðinni starfa 24 manns í Hamrahlíð í Reykjavík. Við bjóðum Þjónustu- og þekkingarmiðstöðina hjartanlega velkomna til leiks! :)
 
Í starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs hafa umhverfismálin sannarlega verið sett á oddinn og hefur þjóðgarðurinn nú fengið viðurkenningu fyrir fyrsta Græna skrefið. Vatnajökulsþjóðgarður spannar rúm 14% af flatarmáli Íslands og er einn stærsti þjóðgarður í Evrópu. Starfsstöðvarnar átta sem hafa lokið fyrsta skrefinu eru staðsettar vítt og breitt um þjóðgarðinn en þær eru Fellabær, Gamlabúð, Gljúfrastofa, Kirkjubæjarklaustur, Mývatn, Skaftafellsstofa, Skaftárstofa og Snæfellsstofa. Starfsmenn eru vel upplýstir um umhverfismál enda eitt af markmiðum þjóðgarðsins að vernda náttúru hans. Áhersla er lögð á að draga úr umhverfisáhrifum t.a.m með umhverfisvænum ferðamátum, flokkun og endurnýtingu úrgangs og minni rafmagnsnotkun. Þjóðgarðurinn hefur sett sér metnaðarfullar stefnur þegar kemur að innkaupum og samgöngum og stuðlar þannig að bættu umhverfi og heilsu starfsfólks á sama tíma og umhverfisvitund gesta og starfsfólks er efld. Vatnajökulsþjóðgarður sýnir gott fordæmi fyrir aðrar stofnanir og óskum við þeim til hamingju með árangurinn!
 
Vinnumálastofnun hefur mikinn áhuga á að vinna markvisst að umhverfismálum í sínum rekstri og hefur því skráð sig til leiks í Grænu skrefin. Hjá stofnuninni starfa 150 manns á átta starfsstöðvum um land allt, en höfuðstöðvar stofnunarinnar eru í Reykjavík. Verið velkomin í hópinn!
 
Í dag fengu heilbrigðis- og félagsmálaráðuneyti viðurkenningu fyrir að hafa innleitt þriðja og fjórða Græna skrefið, einungis rúmu hálfu ári eftir innleiðingu fyrstu tveggja skrefanna. Umhverfismálin hafa verið tekin föstum tökum hjá ráðuneytunum og er verkefnið mjög sýnilegt innanhúss sem gerir starfsmönnum einfaldara fyrir að tileinka sér aðgerðir þess. Öflugt þriggja manna teymi fer fyrir innleiðingu Grænu skrefanna í ráðuneytunum tveimur og hafa þau m.a. staðið fyrir fræðslu um sorpflokkun og unnið að metnaðarfullum markmiðum um samdrátt í losun. Til hamingju með árangurinn!
 
Þjóðskjalasafn Íslands er 68. stofnunin sem stígur með okkur Grænu skrefin. Hjá stofnuninni starfa 35 manns á Laugarvegi 162. Við erum spennt fyrir samstarfinu og bjóðum Þjóðskjalasafn Íslands hjartanlega velkomið til leiks!
 

Skráning á matarsóun

Nú eru stofnanir farnar að huga að matarsóun bæði hvað varðar fræðslu og verkefni til að draga úr matarsóun í mötuneytum. Við höfum gert einfaldan skráningarlista yfir matvæli sem eru framleidd og matvæli sem fara í ruslið. Þá er líka hægt að gera athugun á því hversu mikið af mat sem er sóað er í raun og veru ætur. Þetta skjal mun hjálpa til við þessa útreikninga. 
 

Héraðssaksóknari er nýr þátttakandi

Embætti Héraðssaksóknara hefur verið að innleiða breytingar til að draga úr umhverfismálum um nokkur tíma og hafa þau nú ákveðið að stíga skrefið til fulls og taka þátt í verkefninu með okkar. Við bjóðum þau velkomin í hópinn.
 

Kolefnissjóður MS

Menntaskólinn við Sund hefur stofnað sérstakan kolefnissjóð sem ætlað er að nota til að kolefnisjafna allar skipulagðar hópferðir á vegum skólans, bæði flug og akstur. Helsta losunin hjá skólanum er eins og hjá flestum ríkisstofnunum vegna samgangna en til þess að draga líka úr losun er verið að bæta aðstöðu fyrir þá sem koma hjólandi eða gangandi til vinnu. Yfirbyggt hjólaskýli er í byggingu og settar verða upp hleðslustöðvar fyrir rafbíla.  
 

Alþingi heldur áfram með skrefin

Fyrsti Alþingisdagurinn var haldinn nú á föstudaginn s.l. og var viðburðurinn fyrir bæði starfsmenn og þingmenn. Nú eru aðeins örfáir mánuðir síðan Alþingi fagnaði sínu fyrsta Græna skrefi og nú þegar er skref tvö innleitt hjá þeim. Þau hafa gert virkilega vel í innleiðingu á verkefninu og gert margar breytingar í sínu innra starfi. Mikið hefur dregið úr eða þau hafa alveg hætt með t.d. matvöru í smáumbúðum, minnkað umbúðanotkun og plastpokanotkun. Þau hafa einnig verið mjög virk í því að upplýsa starfsmenn og alþingismenn um verkefni sem verið er að innleiða og hvatt alla til þátttöku. Meiri og skipulagðari flokkun fer fram og svo eitt það mikilvægasta er að nú munu þau vinna markvisst að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna samgangna með t.d. notkun á fjarfundarbúnaði. 
 

Mismunandi ljósamiðar

Stundum hentar ekki að nota áminningarmiða sem verkefnið er að bjóða uppá eða að stofnanir vilja gera eitthvað annað og meira í þeirra anda. Þá eru þetta t.d. mjög skemmtilegir miðar sem Hafró gerði, bæði áminning til starfsmanna og vísun í starfsemi stofnunarinnar. 
 
Rúm fjögur ár eru liðin síðan verkefnið Græn skref í ríkisrekstri fór formlega af stað og hefur orðið jákvæð þróun á tímabilinu. Til að viðhalda gæðum verkefnisins þarf reglulega að uppfæra aðgerðir og kröfur sem ríkisstofnunum eru settar. Síðastliðið sumar var gert endurmat á Grænum skrefum í ríkisrekstri og kröfur verkefnisins hertar. Þar sem Umhverfisstofnun er sú stofnun sem veitir öðrum ríkisstofnunum viðurkenningu fyrir innleiðingu Grænna skrefa, fengum við óháðan aðila til að kanna hvort allar aðgerðirnar væru uppfylltar hjá Umhverfisstofnun. Mannvit framkvæmdi úttektina. Niðurstaðan er að Umhverfisstofnun uppfyllir öll skref Grænna skrefa á öllum starfstöðvum sínum (Reykjavík, á Snæfellsnesi, Patreksfirði, Akureyri, í Mývatnssveit, á Egilsstöðum, Hellu og Vestmannaeyjum. „Það er mjög ánægjulegt að við fáum þessa ytri úttekt sem staðfestir okkar árangur, enda ber hinu opinbera og þá ekki síst Umhverfisstofnun að vera öðrum fordæmi, vera til fyrirmyndar í umhverfismálum,“ segir Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar. Næst á dagskrá hjá okkur er að fara í endurmat á verkefninu hjá þeim stofnunum þar sem minnst tvö ár eru liðin frá því að þær tóku síðasta skref sitt. Þannig ætlum við að tryggja það að allir séu virkir í verkefninu. 
 

Fyrsta skrefið í höfn

Hafrannsóknastofnun fékk sitt fyrsta Græna skref afhent en þau höfðu um nokkurn tíma unnið að umhverfismálum en settu þau í skýrara ferli með Grænu skrefunum. Einnig eru skip Hafró í verkefninu sem verður gaman að fylgjast með í framtíðinni. 
 

Mitt er þitt og þitt er mitt

Höldum hreinu í kringum okkur, það er fyrirtaks hreyfing og gott fyrir umhverfi og sálina að fara út og týna rusl. Það finnst allavega starfsmönnum Umhverfisstofnunar. 
 
Átakið hefst á morgun, 3 vikur stútfullar af skemmtilegheitum. Munum að skrá vinnustaðinn og tökum þátt :)
 

Rafrænar áskriftir í ANR

Atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti réðst nýverið í það verkefni að draga úr magni blaða í áskriftum. Vigtaður var vikuskammtur af blöðum sem reyndist vera 7 kg. Árlega berst því um 370 kg af dagblöðum til ráðuneytisins. Starfsmenn ákváðu í sameiningu að afþakka öll dagblöð til ráðuneytisins en taka þess í stað upp rafrænar áskriftir sem starfsmenn hafa allir aðgang að. 
 
Ríkisskattstjóri hefur gert aðeins nánari útfærslu á samgöngugreiðslum og hefur hækkað skattleysismörk vegna þeirra í 8.000 kr. Skilyrðin eru þessi: Undirritaður sé formlegur samningur milli launagreiðanda og launþega og þarf nýting á þessum ferðamáta að vera í a.m.k. 80% af heildarfjölda ferða sé um fullan styrk að ræða, annars eftir hlufalli. Notaður sé umhverfisvænni samgöngumáti t.d. reiðhjól, almenningssamgöngur eða ganga. 
 

Samdráttur í losun um 40%

Ríkisstjórnin hefur samþykkt loftslagsstefnu stjórnarráðsins. Í henni felst að öll ráðuneytin og Rekstrarfélag stjórnarráðsins ætla að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40% fyrir árið 2030 og kolefnisjafna alla losun sem ekki verður dregið úr. Það ætla þau að gera með því að leggja sérstaka áherslu á flugferðir, ferðir starfsmanna til og frá vinnu, akstur á vegum ráðuneyta, úrgang, orkunotkun og máltíðir í mötuneytum. 
 

Þátttakendur eru orðnir 66 talsins

Nú er Stofnun Árna Magnússonar búin að skrá sig í Grænu skrefin og hlökkum við til samstarfsins.
 

Nýtni er ekki bara skraut hjá ML

Menntaskólinn á Laugarvatni tekur nýtni og nægjusemi mjög hátíðlega og er sú hugsjón gegnumgangandi í öllum rekstri þeirra. Auk þess eru þau með mjög virka umhverfiskennslu fyrir nemendur sem fá að taka virkan þátt í rannsóknum og verkefnum sem tengjast umhverfismálum. Auk þess er menntaskólinn skóli á Grænni grein og hefur flaggað Grænfánanum síðan 2011.