Hvað eru vistvæn innkaup?
Vistvæn innkaup er að velja þá vöru eða þjónustu sem er síður skaðleg umhverfinu eða heilsu manna og ber sama eða lægri líftímakostnað, þ.e. innkaupaverð auk kostnaðar við rekstur, viðhald og förgun, samanborið við aðrar vörur og þjónustu sem uppfylla sömu þörf.
Með stefnu um vistvæn innkaup og grænan ríkisrekstur er leitast við að minnka umhverfisáhrif opinberra innkaupa, aðstoða opinberar stofnanir við að gera rekstur sinn umhverfisvænni og stuðla að sjálfbærri neyslu. Stefnan á að stuðla að bættari samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja sem bjóða umhverfisvænni valkosti til að mæta kröfum ríkisins og verða þar með samkeppnishæfari í ljósi síaukinna krafna um umhverfisvæna kosti.
Leiðarljós
- Góð samskipti við aðila markaðarins og gagnsæ vinnubrögð stuðli að virkri samkeppni, auknu vöruúrvali og nýsköpun til að mæta auknum væntingum og kröfum um umhverfissjónarmið.
- Ríkisstofnanir gefi skýr skilaboð til markaðarins um að þær taki tillit til umhverfissjónarmiða jafnt sem kostnaðar og gæða við innkaup. Kröfur sem ríkið gerir varðandi vistvænan rekstur séu ávallt gagnsæjar og vel rökstuddar. Aðeins með þeim hætti getur markaðurinn brugðist við þeim og bætt framboð sitt sem mætir nýjum þörfum.
- Verklag og verkfæri séu sameiginleg sem gera vistvæn innkaup og grænan ríkisrekstur einfaldan, faglegan og aðgengilegan. Starfsfólk ríkisstofnana fái upplýsingar, fræðslu og faglega ráðgjöf um vistvæn innkaup og grænan rekstur.
- Grænn ríkisrekstur sé markviss og í samræmi við bestu aðferðir hverju sinni.
5 atriði til að hafa í huga áður en keypt er inn:
Hvað þurfum við í raun?
Okkur hættir til að kaupa vörur sem við þurfum í raun ekki á að halda. Þannig fækkaði íslenskt ræstingafyrirtæki ræstiefnum úr tólf í fjögur án þess að slá af gæðakröfum. Einfaldleikinn er oft bestur og getur sparað bæði tíma og peninga.
Þurfum við örugglega að kaupa nýtt?
Með því að nota vöru sem lengst má auka virði þess sem keypt er. Oft er hægt að gera við eða uppfæra það sem fyrir er. Dæmi um þetta er sveitarfélagið Pori í Finnlandi, sem kom á fót vefsíðu þar sem starfsmenn buðu öðrum skrifstofubúnað sem þeir voru hættir að nota.
Hve lengi á varan að endast?
Það getur verið bæði umhverfisvænt og hagkvæmt að kaupa endingargóðar vörur sem auðvelt og ódýrt er að reka, viðhalda eða lagfæra. Við þekkjum öll mýmörg dæmi um slíkt úr eigin heimilishaldi!
Getum við farið betur með það sem til er?
Oft má nýta betur og lengja líftíma tækja með réttri notkun. Til dæmis má á einfaldan hátt stilla prentskipanir þannig að prentað sé báðu megin og tvær síður á hverja hlið. Með því sparast umtalsvert í innkaupum á prentdufti og pappír. Einnig er hægt að velja orkusparandi stillingar sem minnka notkun á rafmagni.
Er hægt að velja allt aðra lausn?
Er möguleiki að fá þetta lánað eða leigt? Oft getur verið hagstæðara að kaupa þjónustu en vöru. Ýmsa hluti, s.s. bíla og tæki, er hægt að leigja og gera má þjónustusamninga s.s. varðandi prentun, þrif og leigubíla. Þannig má minnka útgjöld með óþarfa fjárfestingum og um leið velja umhverfisvænni leið. Innkaup á þjónustu í stað vöru hefur oft skilað umtalsverðum hagnaði.
Þegar þörfin fyrir innkaup liggur ljós fyrir er komið að því að spyrja seljendur og velja síðan besta kostinn.
Notum hugmyndaflugið við innkaup og verum óhrædd að breyta til. Látum ekki vanann stjórna innkaupunum!