Smærri innkaup
Til að auðvelda kaupendum að spyrja og gera kröfur um umhverfisvæna valkosti hafa verið útbúnir gátlistar fyrir nokkra algenga vöruflokka þar sem umhverfisatriðum er forgangsraðað eftir mikilvægi. Vöruflokkarnir eru hér fyrir neðan. Gátlista má nota við smærri innkaup hjá opinberum stofnunum, en þeir gefa hugmynd um hvernig hægt er að velja umhverfisvænar vörur og þjónustu t.d. þegar verið er að kaupa eftir rammasamningum.
Við innkaup undir viðmiðunarfjárhæðum ætti að leita fyrst til þeirra seljenda sem hafa gert rammasamning við Ríkiskaup. Í öllum rammasamningum er kveðið á um umhverfisskilyrði og viðurkenndar umhverfisvottanir.
Ef ekki er til rammasamningur um þá vöru eða þjónustu sem leitað er eftir og innkaupin eru undir viðmiðunarfjárhæðum vegna útboða ber stofnunum að nota svokallað verðfyrirspurnarform sem Ríkisendurskoðun og Ríkiskaup hafa gefið út. Þar gefst kaupendum tækifæri til að kanna m.a. framboð á vistvænum vörum og einnig að athuga með líftímakostnað véla og tækja. Dæmi um spurningar:
- Er varan/þjónustan umhverfismerkt? Sjá áreiðanleg umhverfismerki hér.
- Hvernig endist varan? Hversu miklar eru umbúðirnar? Hversu langt hefur varan verið flutt? Hver er orkunotkun vörunnar?
- Hver er líftímakostnaðurinn, þ.e. innkaupaverð auk kostnaðar við rekstur, viðhald og förgun?
- Ef um þjónustu er að ræða: Er fyrirtækið með vottað umhverfisstjórnunarkerfi t.d. ISO 14001?
Með því að spyrja og gera kröfur um umhverfisvæna valkosti stuðlum við að því að seljendur auki úrval sitt af vistvænni vöru og þjónustu. Um leið aðstoðum við seljendur við að koma auga á tækifæri til nýsköpunar!
Bifreiðar
Spyrjið ykkur hver ferðaþörfin er sem ætlunin er að uppfylla með kaupum á bifreið. Er hægt að uppfylla þessa ferðaþörf á annan og umhverfisvænni hátt, t.d. með breyttum ferðamáta eða með því að nota fjarfundi til samskipta í auknum mæli. Styttri ferðir væri t.d. hægt að fara hjólandi ef reiðhjól væri til staðar.
Veljið bifreið sem er sparneytin. Kaupið ekki þyngri og aflmeiri bifreið en raunveruleg þörf er fyrir til að lágmarka eldsneytiseyðslu og vegslit. Óskið upplýsinga um eldsneytisnotkun bifreiðarinnar. Á vef Orkuseturs (www.orkusetur.is) er hægt að bera saman bifreiðategundir m.t.t. eldsneytisnotkunar og útblásturs koltvísýrings. Reykjavíkurborg hefur skilgreint kröfur fyrir visthæf ökutæki. Samkvæmt þeirri skilgreiningu gildir eftirfarandi:
Veljið bifreið sem uppfyllir Euro V eða sambærilegan staðal. Euro V er staðall sem gerir kröfu um útblástur nýrra bifreiða sem seldar eru í löndum Evrópusambandsins frá og með árinu 2009. Staðallinn setur viðmið fyrir hámarksútblástur NOX efna og svifryks frá dísel- og bensínbifreiðum.
Forðist að kaupa nagladekk. Kaupið heldur vetrardekk án nagla sem eru sambærileg eða jafnvel betri með tilliti til öryggis en slíta götum minna og valda síður svifryki. Notkun nagladekkja er sá þáttur sem veldur helst sliti á malbiki og gróflega má áætla að ef 5% bíla væru á nöglum slíta þeir malbikinu jafn mikið og hin 95% bílanna. Slit á malbiki er stærsti orsakavaldur svifryks á Íslandi. Einnig er hægt að fá dekk með minni núningsmótstöðu sem skilar sér í minni eldsneytisnotkun.
Bleiur
Veljið Svansmerktar bleiur. Svanurinn er trygging fyrir því að varan sé ein sú umhverfisvænsta á markaðnum, án þess að það komi niður á gæðum eða virkni vörunnar.
Sniðgangið bleiur með kremi og ilmefnum. Ilmefnin geta framkallað ofnæmi og verið skaðleg umhverfinu. Krem geta innihaldið efni sem hafa skaðleg áhrif á umhverfi.
Sniðgangið bleiur með ljósvirku bleikiefni (e. optical brightener). Ljósvirk bleikiefni geta valdið húðertingu.
Eldavélar
Veljið eldavélar með orkusparandi hellur. Þannig nýtist best varmi hellunnar til þess að hita pottinn eða pönnuna.
Veljið orkunýtna innbyggða ofna. Veljið ef kostur er orkumerkið A en ef það er ekki hægt, þá B. Ekki kaupa úr síðri flokkum Orkumerkis ESB.
Veljið seljanda sem tekur við notuðum eldavélum eða ofnum til endurvinnslu. Framleiðendur bera ábyrgð á að raftækjum sé skilað inn til endurvinnslu. Tryggið að svo sé.
Veljið eldavél þar sem leiðbeiningar fylgja um orkusparandi notkun. Óskið eftir leiðbeiningum frá framleiðanda um orkusparnað eldavélar. Ef ekki er völ á leiðbeiningum frá framleiðanda má ef til vill nálgast leiðbeiningar um orkusparandi notkun hjá raforkusalanum, t.d. OR.
Handsápa og hársápa
Veljið handsápu eða hársápu sem merkt er Svaninum eða sænska umhverfismerkinu Bra Miljöval. Einnig er hægt að líta eftir Evrópublóminu. Svanurinn er trygging fyrir því að varan sé ein sú umhverfisvænsta á markaðnum, án þess að það komi niður á gæðum eða virkni vörunnar. Til er nokkurt úrval af umhverfismerktri sápu á íslenskum markaði.
Veljið handsápu eða hársápu án litar- og ilmefna. Litar- og ilmefni geta haft skaðleg áhrif á umhverfið. Ilmefni geta einnig ert öndunarveg og framkallað ofnæmi hjá viðkvæmum einstaklingum. Efnin eru ekki nauðsynleg fyrir virkni sápunnar og ætti því að sniðganga.
Veljið vörur sem auðvelt er að skammta hæfilega. Froðusápu er auðvelt að skammta hæfilega og er því góð leið til að draga úr notkun.
Gluggatjöld
Veljið gluggatjöld sem merkt eru Evrópublóminu. Evrópublómmerkt gluggatjöld eru trygging fyrir því að varan sé ein sú umhverfisvænsta á markaðnum án þess að það komi niður á gæðum eða virkni. Kannið hvort að slík vara stendur til boða.
Veljið gluggatjöld sem eru litheld við lýsingu (að lágmarki stig 5). Gluggatjöldin skulu vera litheldin gagnvart sólarljósi, mælt samkvæmt viðeigandi stöðlum.
Eigi gluggatjöld að vera eldhemjandi, veljið þá varanlega eiginleika. Ef gluggatjöld þurfa að vera gædd eldhemjandi eiginleikum, ætti að velja þau sem innihalda trefjar með varanlegum eldhemjandi eiginleikum. Trefjarnar skulu annað hvort vera eldhemjandi eða innihalda svokallaðar MAC-trefjar sem eru eldhemjandi. Eldhemjandi efni skulu ekki vera halógensambönd (einkum klór og bróm).
Veljið gluggatjöld sem eru bleikt án klórsambanda. Klórbleiking skapar hættu á myndun og losun á AOX (e. adsorbable organic halogen). Mörg AOX efni eru eitruð. Flest leysast upp í fitu og safnast fyrir í fituvef og sum eru krabbameinsvaldandi.
Gólfþvottavélar
Veljið orkunýtnar gólfþvottavélar. Gólfþvottavélar nota mun meiri orku en hefðbundin gólfræsting. Veljið eins orkunýtnar gólfþvottavélar og mögulegt er.
Veljið gólþvottavélar sem nota lítið af vatni og hreinsiefnum. Gólfþvottavélar nota minna af vatni og hreinsiefnum en hefðbundin gólfræsting. Veljið gólfþvottavélar sem eru nýtnar á vatn og hreinsiefni.
Veljið gólþvottavélar án krómaðra röra. Sniðgangið gólfþvottavélar sem eru búnar galvaniseruðum íhlutum, þ.e. innihalda króm eða aðra málma á yfirborði. Króm er skaðlegt vatnalífi.
Grófir vinnuhanskar
Veljið vinnuhanska sem hafa verið sútaðir án þungmálma, þ.m.t. króm. Veljið leður sem hefur verið sútað með sútunarefnum úr jurtaríkinu eða lífrænum efnum án þungmálma. Þá er engin hætta á að málmsölt mengi í frárennsli og seyru þegar hanskarnir verða að úrgangi.
Veljið vinnuhanska þar sem bindihlutfall fyrir króm er yfir 90%. Ef hanskarnir hafa verið sútaðir með krómi, skal bindihlutfall (e. fixation rate) vera yfir 90%. Króm er takmörkuð auðlind. Til þess að draga úr notkun auðlindarinnar og umhverfisáhrifum vegna sútunar með krómi skal hæsta mögulega hlutfall vera bundið í leðrinu.
Veljið vinnuhanska sem eru ólitaðir. Þá er engin hætta á að litarefni smiti á hendur.
Veljið vinnuhanska úr lífrænt ræktaðri bómull. Ef bómullin er lífrænt ræktuð er ekki notaður tilbúinn áburður eða skordýraeitur.
Hjólbarðar
Veljið hjólbarða sem uppfylla kröfur Svansins eða eru merktir Svaninum. Svansmerktir hjólbarðar eru; lausir við fjölhringa arómatískar olíur (PCA olíur) á slitflötum og valda því minni losun heilsuspillandi efna í andrúmsloft; uppfylla kröfur um litla snúningsmótstöðu og spara þannig eldsneyti; eru hljóðlátari í akstri; uppfylla sérstakar gæðakröfur og kröfur um losun við framleiðslu hjólbarðanna.
Veljið sólaða hjólbarða, þ.e. notaða hjólbarða með nýjum sólum. Með því að velja sólaða hjólbarða er dregið úr notkun óendurnýjanlegra auðlinda og úrgangi. Fyrir fólksbíla þarf sérstaklega að huga að lítilli snúningsmótstöðu. Lítil snúningsmótstaða skiptir meira máli út frá umhverfissjónarmiði en að kaupa sólaða hjólbarða.
Veljið hjólbarða með minni snúningsmótstöðu. Snúningsmótstaða hjólbarða hefur áhrif á orkunotkun. Það á einkum við um akstur við meðalhámarkshraða á þjóðvegum eða í þéttri byggð. Veljið því frekar hjólbarða með litla snúningsmótstöðu, einnig ef hjólbarðarnir eru sólaðir.
Hreinlætispappír
Veljið umhverfisvottaðan pappír. Ef valinn er pappír sem vottaður er af til dæmis norræna umhverfismerkinu Svaninum eða Evrópublóminu þá hafa neðangreind atriði þegar verið uppfyllt.
Veljið endurunninn pappír. Því stærri hlutfall af pappírnum sem er endurunninn því betra. Mun minna af orku þarf til að framleiða hreinlætispappír úr endurunnum pappírsmassa en úr nýjum trefjum.
Veljið pappír sem ekki er bleiktur með klór. Klórbleiking skapar mengunarvandamál í nærumhverfi framleiðslunnar. Ef upplýsingar um bleikingaraðferð er ekki að finna á umbúðum ættu seljendur að geta veitt upplýsingar um hvort pappír sé klórbleiktur.
Veljið pappír sem er ekki pakkaður í PVC-plast. Plastgerðin PVC (pólivínylklóríð) inniheldur lífræn klórsambönd sem valda mengun við urðun og brennslu. Seljendur geta upplýst ykkur um plastgerð komi það ekki fram á umbúðunum.
Hreinsi- og ræstiefni
Leitið leiða til að draga úr innkaupum hreinsi- og ræstiefna. Með góðu skipulagi ræstinga er oft hægt að minnka skammta og fækka tegundum hreinsi- og ræstiefna og draga úr tíðni ræstinga, án þess að það hafi áhrif á gæði.
Veljið hreinsi- og ræstiefni sem eru umhverfismerkt, t.d. með Svansmerkinu eða Evrópublóminu. Viðurkennd umhverfismerking er trygging fyrir því að viðkomandi vara er meðal þeirra sem uppfylla ströngustu umhverfiskröfur og að umhverfisáhrif vörunnar hafi markvisst verið lágmörkuð á öllum stigum lífsferils hennar, án þess að það sé á kostnað virkni eða gæða vörunnar. Umhverfismerkt efni innihalda ekki skaðleg efni á borð við fosfónöt, LAS, APEO, NPEO, EDTA og NTA.
Forðist að velja efnavörur sem innihalda litar- og ilmefni. Ilmefni geta valdið ofnæmisviðbrögðum auk þess sem litar- og ilmefni eru hugsanlega skaðleg öðrum lífverum. Litar- og ilmefni eru ekki nauðsynleg fyrir hreinsivirkni vörunnar og má því sleppa.
Forðist að velja þvottaefni sem innihalda bleikiefni. Bleikiefni (e. optical whitener) hafa ekki hreinsivirkni en hafa það hlutverk að gera hvítan þvott hvítari. Slík efni geta haft skaðleg áhrif á vatnalífverur.
Húsgögn
Veljið húsgögn sem eru vönduð, auðvelt að viðhalda og endast vel (í a.m.k. 10 ár). Vörur með stuttan líftíma og/eða hönnun sem úreldist hratt leiðir til meiri auðlindanotkunar og óþarfa kostnaðar. Æskilegt er að kaupa vandaðri húsbúnað þó svo hann sé hugsanlega dýrari við innkaup getur hann verið ódýrari til lengri tíma ef viðhald er minna og húsbúnaðurinn dugi lengur. Óskið eftir upplýsingum um styrk og frágang þeirra hluta sem verða fyrir mestu álagi,t.d. áklæði, samsetningar og festingar og velið það sem hentar best í hverju tilfelli.
Veljið húsgögn sem fylgja upplýsingar um notkun og viðhald, s.s. varðandi þrif og viðgerðir. Gott viðhald tryggir langan líftíma húsgagnanna.
Veljið húsgögn sem eru í ábyrgð eða sem hægt er að fá varahluti í, helst í a.m.k 10 ár. Æskilegt er að hægt sé að gera við og/eða skipta um þann hluta húsgagnsins sem er úr sér genginn, í stað þess að kaupa allt nýtt. Sem dæmi að hægt sé að skipta um áklæði á stólum, eða borðplötu án mikillar fyrirhafnar.
Kannið hvort hægt sé að fá húsgögn sem eru umhverfismerkt. Hægt er að fá umhverfismerkt húsgögn, t.d. merkt með Svansmerkinu, s.s. skrifstofustóla, bólstruð húsgögn og stóla og hillur úr tré. Hafa ber í huga að ekki eru til Svansviðmið fyrir allar gerðir húsgagna og úrvalið á Íslandi er eins og er ekki mikið. Einnig er hægt að fá viðarhúsgögn sem merkt eru með FSC merkinu, til marks um að viðurinn í vörunni sé upprunninn í skógi sem nýttur er á sjálfbæran hátt.
Veljið húsgögn sem auðvelt er að endurvinna. Endurvinnsla er auðveldari ef varan er úr einsleitu efni (s.s. tré eða málmi). Ef varan er blanda af margvíslegum efnum á að vera auðvelt að aðskilja þau (t.d. plast frá málmi) til að auðvelda endurvinnslu.
Kaplar og leiðslur
Veljið kapla sem eru nægjanlega sverir. Sverir kaplar henta betur þegar fyrirhuguð orkunotkun er mikil. Því meira sem þverskurðarflatarmál leiðarans er, þeim mun minni orka tapast sem varmi í kaplinum og nýtist þar með ekki.
Veljið kapla með hulsum og einangrunarefnum án brómerandi eldhemjandi efna, antímon og klórparaffína. Brómefnasambönd og antímontríoxíð eru stundum notuð sem eldhemjandi efni í köplum en eru heilsuspillandi og mögulega krabbameinsvaldandi. Sumir kaplar innihalda að auki klórparaffína sem eldhemjandi efni eða mýkingarefni. Klórparaffínar hafa kröftug eituráhrif á vatnalífverur og geta haft langvarandi neikvæð áhrif á lífríki vatns.
Veljið kapla með hulsum og einangrunarefnum án PVC. Sniðgangið PVC í einangrunarefnum og hulsum. Við brennslu á PVC myndast mjög heilsuspillandi lofttegundir, m.a. díoxín. Veljið frekar kapla úr PE eða sveigjanlegu polyolefin (FPO).
Veljið kapla með hulsum og einangrunarefnum án klórópren. Sniðgangið klórópren í einangrun og hulsum (klórópren er einnig þekkt sem neopren). Klórópren er einkum að finna í varnarhulsum á færanlegum leiðslum sem þola olíuslettur, ljós og veðrun, til dæmis skipsköplum. Við bruna á klóróprenköplum myndast heilsuskaðlegar lofttegundir. Veljið frekar kapla úr PE eða sveigjanlegu polyolefin (FPO).
Kæliskápar og frystar
Veljið kælitæki sem uppfylla kröfur Svansins eða Blómsins. Umhverfisvænstu kælitækin á markaðnum uppfylla kröfur umhverfismerkjanna Svanurinn eða Blómið, án þess að það komi niður á gæðum eða virkni.
Veljið kælitæki sem merkt eru A eða B. Öll kælitæki fyrir heimilisnot eru merkt Orkumerki ESB. Kælitækin eru merkt bókstaf á bilinu A – G, þar sem A er orkunýtnast.
Ljósaperur
Veljið sparperur. Sparperur nota um fjórðungi af því rafmagni sem venjulegar glóperur þurfa og þær duga 8 sinnum lengur. Athugið að sparperur og flúorperur innihalda spilliefni m.a. kvikasilfur og því má alls ekki setja þær í almennan úrgang heldur þarf að skila þeim til endurvinnslu. Ljósaperur eru merktar Orkumerki ESB með bókstaf á bilinu A – G, þar sem A er orkunýtnast.
Veljið langan endingartíma. Sparperur, flúorperur eða venjulegar glóperur hafa mislangan endingartíma. Veljið perur sem endast í 10.000 ljóstíma eða lengur.
Málning
Veljið málningu sem hentar verkefninu. Mikilvægt er að velja rétta málningu sem hentar verkefninu, bæði m.t.t. gæða og endingar. Leitið til málara sem gefur góð ráð og leiðbeiningar um viðeigandi málningu.
Veljið málningu sem merkt er Svaninum eða Blóminu. Umhverfismerkin Blómið og Svanurinn eru trygging fyrir því að varan sé ein sú umhverfisvænasta á markaðnum án þess að það komi niður á gæðum eða virkni.
Veljið málningu með lágar tölur varúðarflokka eins og gæðakröfur ykkar leyfa. Vörur með lágar tölur varúðarflokka innihalda minna af umhverfis- og heilsuskaðlegum efnum. Málning með lágar tölur inniheldur einnig minna af leysiefnum en málning með hærri tölu.
Tölurnar eru tvær, t.d. 0-1 eða 2-1. Fyrri talan gefur til kynna hversu hættulegt efnið er til innöndunar. Seinni talan gefur til kynna mögulega ertingu á húð eða ofnæmi. 0 er hættuminnst í báðum tilvikum.
Mælið og reiknið út stærð flatarins sem á að mála. Þannig komið þið í veg fyrir að kaupa of mikið af málningu sem svo þarf að henda. Oftar en ekki er keypt of mikil málning, stundum vegna þess að það munar ekki svo miklu í verði eða til að vera alveg örugg með magn. Aukamálningin endar oftar en ekki sem úrgangur.
Málningarvinna
Gangið úr skugga um að málningin henti verkefninu. Mikilvægt er að velja rétta málningu sem hentar verkefninu, bæði m.t.t. gæða og endingar. Leitið til málara sem gefur góð ráð og leiðbeiningar um viðeigandi málningu.
Veljið málningu sem merkt er Svaninum eða Blóminu. Umhverfismerkin Blómið og Svanurinn eru trygging fyrir því að varan sé ein sú umhverfisvænsta á markaðnum án þess að það komi niður á gæðum eða virkni.
Veljið málningu með lágar tölur varúðarflokka eins og gæðakröfur ykkar leyfa. Vörur með lágar tölur varúðarflokka innihalda minna af umhverfis- og heilsuskaðlegum efnum. Málning með lágar tölur inniheldur einnig minna af leysiefnum en málning með hærri tölu.
Tölurnar eru tvær, t.d. 0-1 eða 2-1. Fyrri talan gefur til kynna hversu hættulegt efnið er til innöndunar. Seinni talan gefur til kynna mögulega ertingu á húð eða ofnæmi. 0 er hættuminnst í báðum tilvikum.
Tryggið að úrgangsmálning fari í spilliefnameðhöndlun. Sjáið til þess að úrgangsmálningu sé safnað og skilað inn til spilliefnameðhöndlunar. Úrgangsmálning hefur neikvæð áhrif á umhverfið, því er mikilvægt að meðhöndla hana rétt.
Veljið málara sem vinnur að því að bæta vinnuumhverfi. Hafi málningarverktakinn gert áhættumat á vinnuumhverfi sínu, má gera ráð fyrir því að unnið sé af alvöru með öryggi og heilbirgði starfsmanna.
Plastpokar
Veljið plastpoka sem uppfylla kröfur umhverfismerkisins Blái engillinn. Umhverfismerktir plastpokar eru án ýmissra varasamra efna sem hafa áhrif á heilsu og umhverfi, t.d. PVC, eldhemjandi efnin PBB og PBDE, polyuretan með halógeneruðum samböndum, kadmíum, efni sem flokkuð eru sem krabbameinsvaldandi, stökkbreytandi, hafa eituráhrif á æxlun eða eru eitruð og þrávirk, eða sem innihalda ákveðnar hættusetningar:
- H 370 (R 39/23/24/25/26/27/28) Valda líffæraskemmdum
- H 371 (R 68/20/21/22) Geta valdið skemmdum á líffærum
- H 372 (R 48/25/24/23) Valda líffæraskemmdum
- H 373 (R 48/20/21/22) Geta valdið skemmdum á líffærum
- H 410 (R 50/53) Sterk, langvarandi eituráhrif á vatnalíf.
Veljið plastpoka sem eru án PVC. Plastgerðin PVC (pólivínylklóríð) inniheldur lífræn klórsambönd sem valda mengun við urðun og brennslu.
Endurhugsið notkun á plastpokum – mætti minnka notkun á plastpokum? Mætti t.d. sleppa því að nota plastpoka í söfnunarílátum fyrir pappír? Fyrirtæki hafa sparað mikla fjármuni á að endurhugsa og draga úr plastpokanotkun. Er hægt að nota niðurbrjótanlega poka í staðinn fyrir plastpoka, t.d. fyrir lífrænan úrgang?
Veljið plastpoka úr endurunnu plasti. Því stærra hlutfall endurunnið því betra. Dregið er úr þörf fyrir not á óendurnýjanlegri auðlind, olíu. Athugið að ekki er leyfilegt eða ráðlegt að pokar fyrir matvæli sér úr endurunnu plasti.
Prentþjónusta
Leitið leiða til að lágmarka umfang þess sem á að prenta. Oft er hægt að koma upplýsingum til skila á árangursríkan og umhverfisvænni hátt með öðrum leiðum, t.d. á tölvutæku formi. Einnig er hægt að minnka umfang efnis sem á að prenta með hnitmiðuðum texta og skynsamlegri uppsetningu.
Veljið prentþjónustu sem er umhverfismerkt (s.s. með Svansmerkinu) eða sem vinnur samkvæmt vottuðu umhverfisstjórnunarkerfi (s.s. ISO 14001 eða EMAS). Viðurkennd umhverfismerking er trygging fyrir því að viðkomandi prentþjónusta er meðal þeirra sem uppfylla ströngustu umhverfiskröfur og að umhverfisáhrif þjónustunnar hafi markvisst verið lágmörkuð á öllum stigum lífsferils hennar, án þess að það sé á kostnað virkni eða gæða vörunnar. Sé unnið samkvæmt vottuðu umhverfisstjórnunarkerfi er það til marks um að markvisst sé unnið að því að lágmarka umhverfisáhrif starfseminnar.
Biðjið um að notaður sé pappír sem er umhverfismerktur t.d. með Svaninum, Blóminu eða Bláa Englinum.
Takið mið af því við hönnun á prentefni að notað verði pappírsform og stærð sem lágmarkar pappírsafskurð. Stór hluti pappírssóunar prentþjónustu stafar af því að prentefni er ekki hannað þannig að pappír nýtist sem best. Með réttri hönnun er hægt að minnka pappírsnotkun verulega.
Biðjið um að notaður sé pappír sem hæfir notkun og er eins þunnur og mögulegt er. Þannig er stuðlað að því að ekki sé notaður þykkari eða meira meðhöndlaður pappír en þörf er á. Þó getur borgað sig að nota þykkari pappír af meiri gæðum til að hámarka endingu þess sem verið er að prenta, þegar viðkomandi prentefni þarf að endast lengi.
Ræstiþjónusta
Veljið Svansvottaða ræstiþjónustu. Vottunin tryggir að efnin sem eru notuð séu ekki skaðleg umhverfinu eða heilsu og að hóflegt magn sé notað. Vottunin tryggir einnig að starfsfólk hafi fengið viðeigandi þjálfun í notkun ræstiefna og að fylgst sé með eldsneytisnotkun bíla fyrirtækisins.
Veljið ræstiþjónustu þar sem starfsfólk hefur hlotið þjálfun í notkun ræstiefna og -aðferða. Mikilvægt er fyrir umhverfið og vinnuumhverfi að starfsfólk noti ræstiefni á réttan hátt og að vinnuaðstæður séu sem bestar. Verkkaupi ræstingar skal lýsa ræstiaðferðum sem nauðsynlegar eru fyrir verkið.
Sniðgangið þrýstiþvott og aðrar úðunarhreinsiaðferðir. Vökvaúðun veldur mistri sem helst svífandi lengi. Ræstiefni sem komast í snertingu við öndunarvegi geta haft ertandi áhrif, geta jafnvel haft samskonar áhrif og bruni og valdið þannig lungnaskaða. Þetta á bæði við um basísk og súr efni.
Sérstök ræstiefni
Veljið ræstiefni merkt Blóminu eða Svaninum. Umhverfismerkin Blómið og Svanurinn eru trygging fyrir því að varan sé ein sú umhverfisvænsta á markaðnum án þess að það komi niður á gæðum eða virkni.
Veljið ræstiefni án tensíðanna LAS, APEO og NPEO. Sniðgangið virku efnin (tensíð) LAS, APEO og NPEO. Sum efnanna eru eitruð vatnalífverum, önnur brotna illa niður eða brotna niður í efni sem grunuð eru um að hafa hormónatruflandi áhrif.
Veljið ræstiefni án bindlanna EDTA, NTA og fosfónata. EDTA, NTA og fosfónatar eru bindlar (e. complexing agents), þ.e. efni sem draga úr hörku vatns. EDTA og fosfónatar brotna illa niður í hreinsivirkjum frárennslis og eru skaðleg eða hættuleg vatnalífverum. EDTA og NTA binda þungmálma sem flytjast þannig með frárennslinu út í vatnakerfi.
Veljið ræstiefni með auðniðurbrjótanlegum virkum þvottaefnum. Virku efnin (tensíðin) skulu vera auðniðurbrjótanleg.
Skrifstofupappír
Veljið pappír sem er umhverfismerktur. t.d. með Svansmerkinu, Blóminu eða Bláa Englinum. Viðurkennt umhverfismerki er trygging fyrir því að viðkomandi vara er uppfyllir strangar umhverfiskröfur og að umhverfisáhrif vörunnar hafi markvisst verið lágmörkuð á öllum stigum lífsferils hennar, án þess að það sé á kostnað virkni eða gæða vörunnar.
Leitið leiða til að draga úr innkaupum á pappír. Nokkur ráð um þetta er að finna hér að neðan.
Veljið pappír sem hæfir notkun. Þannig er stuðlað að því að ekki sé notaður þykkari eða meira meðhöndlaður pappír en þörf er á. Þó getur borgað sig að nota þykkari pappír af meiri gæðum til að hámarka endingu þess sem verið er að prenta, þegar það á við.
Forðist að kaupa litaðan pappír. Litaður pappír hefur í för með sér meiri umhverfisáhrif en hvítur pappír því hann krefst aukinnar efnanotkunar við framleiðslu og endurvinnslu.
Sængurföt
Veljið sængurföt sem merkt eru Blóminu eða Svaninum. Umhverfismerkin Blómið og Svanurinn eru trygging fyrir því að varan sé ein sú umhverfisvænsta á markaðnum án þess að það komi niður á gæðum eða virkni. Kröfur umhverfismerkjanna eru svipaðar en Svanurinn gerir auk þess kröfur um lífrænt ræktaða bómull og að tekið sé mið af samfélagslegum þáttum.
Veljið sængurföt sem eru litheldin við þvott. Sængurföt er mikið þvegin. Því er mikilvægt að vefnaðurinn og litun séu þvottekta miðað við viðeigandi staðla (að lágmarki 4 stig).
Veljið sængurföt sem eru án þungmálma. Við litun, einkum blárra og grænna lita, hafa þungmálmar mikið verið notaðir (s.s. kopar, króm, kadmíum og nikkel). Í dag er hins vegar mögulegt að lita vefnað án þungmálma.
Veljið sængurföt sem eru bleikt án klórefna. Klórbleiking skapar hættu á myndun og losun á AOX (e. adsorbable organic halogen). Mörg AOX efni eru eitruð. Flest leysast upp í fitu og safnast fyrir í fituvef og sum eru krabbameinsvaldandi.
Tölvu- og skrifstofubúnaður
Veljið tölvu- og skrifstofubúnað sem er umhverfismerktur ef mögulegt er. Hægt er að fá umhverfismerktar tölvur og skjái, t.d. merktar með TCO (t.d. TCO ’03 eða TCO ’06) eða með Svansmerkinu. Þessar umhverfisvottanir gera kröfur m.a. um orkunotkun, hávaða og innihald þungmálma.
Veljið tölvu- og skrifstofubúnað sem hafa góða orkunýtingu. Veljið búnað sem er með viðurkennt orkusparnaðarmerki s.s. Energy Star.
Veljið tölvu sem auðvelt er að uppfæra og hefur fjölbreytta tengimöguleika. Uppfærslur geta lengt líftíma tölvunnar, t.a.m. ef hægt er að bæta við vinnsluminni, skipta um harðan disk, geisladrif o.s.frv. Tengimöguleikar, t.d. með USB, gera mögulegt að tengja við utanáliggjandi búnað, s.s. harða diska, dvd drif eða annað, í stað þess að kaupa strax nýja tölvu.
Biðjið birgja um að halda magni umbúða í lágmarki og að hann taki við umbúðunum aftur og komi þeim til endurvinnslu.
Vinnuföt
Veljið vinnuföt sem merkt eru Blóminu. Blómmerkt föt eru trygging fyrir því að varan sé ein sú umhverfisvænsta á markaðnum án þess að það komi niður á gæðum eða virkni. Kannið hvort slíkt stendur til boða.
Veljið vinnuföt sem merkt eru Öko-Tex-staðlinum. Öko-Tex-merkið sýnir að ekki er farið yfir leyfileg viðmiðunarmörk um hættuleg efni í vefnaðarvörunni.
Veljið vinnuföt sem eru án þungmálma. Við litun, einkum blárra og grænna lita, hafa þungmálmar mikið verið notaðir (s.s. kopar, króm, kadmíum og nikkel). Í dag er hins vegar mögulegt að lita vefnað án þungmálma, kannið það hjá söluðailanum.
Veljið vinnuföt úr lífrænt ræktaðri bómull. Sé bómullin lífrænt ræktuð hefur ekki verið notað skordýraeitur eða tilbúinn áburður.
Þvottaefni
Veljið þvottaefni merkt Blóminu eða Svaninum. Umhverfismerkin Blómið og Svanurinn eru trygging fyrir því að varan sé ein sú umhverfisvænsta á markaðnum án þess að það komi niður á gæðum eða virkni.
Veljið þvottaefni án tensíðanna LAS, APEO og NPEO. Sniðgangið virku efnin (tensíð) LAS, APEO og NPEO. Sum efnanna eru eitruð vatnalífverum, önnur brotna illa niður eða brotna niður í efni sem grunuð eru um að hafa hormónatruflandi áhrif.
Veljið þvottaefni án bindlanna EDTA, NTA og fosfónata. EDTA, NTA og fosfónatar eru bindlar (e. complexing agents), þ.e. efni sem draga úr hörku vatns. EDTA og fosfónatar brotna illa niður í hreinsivirkjum frárennslis og eru skaðleg eða hættuleg vatnalífverum. EDTA og NTA binda þungmálma sem flytjast þannig með frárennslinu út í vatnakerfi.
Veljið þvottaefni án litar- og ilmefna. Litar- og ilmefni geta verið skaðleg umhverfinu. Ilmefnin geta haft ertandi áhrif á öndunarvegi og framkallað ofnæmi hjá viðkvæmum einstaklingum. Sniðganga ætti efnin þar sem þau eru ekki nauðsynleg fyrir þvottavirknina.
Veljið þvottaefni án ljósvirkra bleikiefna (optical brightener). Ljósvirk bleikiefni eru torleystar sameindir og eitraðar vatnalífverum. Ljósvirk bleikiefni hafa ekki hreinsandi áhrif en láta hvítan þvott líta út fyrir að vera hvítari með því að endurkasta meira af bláu en gulu ljósi.
Þvottahús
Hér má finna spurningar sem spyrja ætti birgja.
Fáið upplýsingar um þvottaefnin og umbúðirnar:
- Eru þvottaefni án tensíðanna LAS, APEO og NPEO? Sniðgangið virku efnin (tensíð) LAS, APEO og NPEO. Sum efnanna eru eitruð vatnalífverum, önnur brotna illa niður eða brotna niður í efni sem grunuð eru um að hafa hormónatruflandi áhrif.
- Eru þvottaefnin án bindlanna EDTA, NTA og fosfónata? EDTA, NTA og fosfónatar eru bindlar (e. complexing agents), þ.e.a.s. efni sem draga úr hörku vatns. EDTA og fosfónatar brotna illa niður í hreinsivirkjum frárennslis og eru skaðleg eða hættuleg vatnalífverum. EDTA og NTA binda þungmálma sem flytjast þannig með frárennslinu út í vatnakerfi.
- Eru þvottaefnin án ljósvirkra bleikiefna (optical brightener)? Ljósvirk bleikiefni eru torleystar sameindir og eitraðar vatnalífverum. Ljósvirk bleikiefni hafa ekki hreinsandi áhrif en láta hvítan þvott líta út fyrir að vera hvítari með því að endurkasta meira af bláu en gulu ljósi.
- Eru þvottaefnin án litar- og ilmefna? Litar- og ilmefni geta verið skaðleg umhverfinu. Ilmefnin geta haft ertandi áhrif á öndunarvegi og framkallað ofnæmi hjá viðkvæmum einstaklingum. Sniðganga ætti efnin þar sem þau eru ekki nauðsynleg fyrir þvottavirknina.
- Eru þvottaefnin án skaðlegra efna? Með skaðlegum efnum er átt við efni sem eru krabbameinsvaldandi, hafa neikvæð áhrif á æxlun, eru ofnæmisvaldandi eða hafa skaðleg áhrif á taugakerfið. Þetta eru efni sem geta valdið varanlegum heilsuskaða.
- Eru umbúðir án PVC? Við brennslu á PVC myndast mörg mengandi efni.
Fáið upplýsingar um þvottahúsið:
- Er þvottahúsið með vottað umhverfisstarf? Ef þvottahúsið hefur fengið vottun á umhverfisstarf sitt (ISO 14001 eða EMAS) má gera ráð fyrir því að skipulega sé unnið að því að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum vegna starfseminnar.
- Vinnur þvottahúsið skipulega með vinnuvernd eða er vinnuvernd hluti af umhverfisstjórnunarkerfinu? Hafi þvottahúsið innleitt vottað vinnuumhverfisstarf (t.d. OHSAS 18001), má gera ráð fyrir að skipulega sé unnið að því að bæta vinnuumhverfi. ISO 14001 og EMAS tekur ekki til vinnuumhverfis, en fyrirtækið getur auðveldlega innleitt það í stjórnunarkerfi sitt.
- Býður þvottahúsið upp á umhverfismerkt lín? Sé línið merkt Blóminu eða Svaninum er það trygging fyrir því að varan hefur sem minnst umhverfisáhrif án þess að það komi niður á gæði eða virkni. Sé línið merkt Øko-Tex 100-staðlinum, gefur það til kynna að varan sé undir mörkum fyrir nokkur heilsuskaðleg efni og efnasambönd.
- Er skráð notkun á orku, vatni og þvottaefnum? Ef þvottahúsið fylgist ekki með notkun á orku, vatni og þvottaefnum er meiri hætta á sóun.
- Er þvottahúsið með skriflega vinnuverndaráætlun? Ef þvottahúsið vinnur eftir skriflegri vinnuverndaráætlun má gera ráð fyrir að unnið sé af alvöru með öryggi og heilbrigði í daglegum störfum.
Fáið upplýsingar um endurnotkun:
- Stuðlar þvottahúsið að því að föt sem hætt er að nota séu send til endurvinnslu? Þvottahúsið ætti að safna úreldum fötum til endurvinnslu, fötin nýtast til að búa til ný klæði, klúta og þess háttar.
- Sendir þvottahúsið umbúðir til endurvinnslu eða endurnotkunar? Ef þvottahúsið sendir notaðar umbúðir til endurvinnslu eða endurnotkunar ætti það að draga úr auðlindanotkun.