Í Grænu skrefunum hefur alltaf verið lögð áhersla á að stofnanir setji sér umhverfisstefnu. Þegar skylda stofnana til að setja sér loftslagsstefnu var sett fram í loftslagslögum var tekin ákvörðun um að skeyta þessu tvennu saman í aðgerðum skrefanna og tala um umhverfis- og loftslagsstefnu. En hver er þá munurinn á umhverfisstefnu og loftslagsstefnu?
Loftslagsstefna eins og hún er skilgreind samkvæmt leiðbeiningum á þessari síðu er auðvitað umhverfisstefna. Aftur á móti nær loftslagsstefna yfir afmarkað svið umhverfismála sem snúa að loftslagsbreytingum og losun gróðurhúsalofttegunda svo það þarf að passa upp á að aðrir umhverfisþættir gleymist ekki, sérstaklega ekki þeir þýðingarmestu. Þess vegna tölum við um umhverfis- og loftslagsstefnu í Grænu skrefunum. Dæmi um umhverfisþætti sem eiga heima í umhverfisstefnu en ekki endilega í loftslagsstefnu eru t.d. plastnotkun efnanotkun, pappírsnotkun og innkaup (þó að þessir þættir geti sannarlega valdið losun gróðurhúsalofttegunda er oftar en ekki erfitt að meta það eins og staðan er í dag).
Æskilegt er að umhverfisstefna (unnið upp úr ISO 14001 staðlinum):
- Hæfi tilgangi og samhengi stofnunarinnar
- Skapi umgjörð til að setja markmið fyrir viðeigandi umhverfisþætti
- Feli í sér skuldbindingu um að vernda umhverfið, þ.m.t. með því að koma í veg fyrir mengun en einnig skal tilgreina aðrar sértækar skuldbindingar sem hæfa starfseminni ef við á (t.d. sjálfbær nýting auðlinda og verndun líffræðilegs fjölbreytileika)
- Feli í sér skuldbindingu um að uppfylla viðeigandi lagakröfur á sviði umhverfismála
- Feli í sér skuldbindingu um stöðugar umbætur á umhverfisstjórnunarkerfinu (ef það er til staðar) til að auka árangur í umhverfismálum
Dæmi um samtvinnaða umhverfis- og loftslagsstefnu má sjá á vef Umhverfisstofnunar og umfjöllun um umhverfisstjórnun, umhverfisþætti og umhverfisáhrif má finna í leiðbeiningum um 5. skref undir Vinnugögn á heimasíðu Grænna skrefa.