Fyrir hverja er verkefnið?
Eins og staðan er núna geta einungis stofnanir og fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins skráð sig til leiks. Vonandi getum við með tíð og tíma boðið fleiri aðilum í verkefnið. Hinsvegar er efni Grænna skrefa opið öllum og hvetjum við þá sem vilja til að nýta sér það og stuðla þar með að bættri umgengni við umhverfið.
Hvert er umfang verkefnisins?
Umfang verkefnisins fer eftir stærð vinnustaðarins og hvort nú þegar hafi verið stigin skref í þágu umhverfisins. Aðgerðirnar miða að venjulegri skrifstofustarfsemi en ef stofnanir vilja teygja þær yfir aðra kima starfseminnar þá hvetjum við að sjálfsögðu til þess.
Við mælum með því að byrja á því að lesa sig í gegnum aðgerðirnar í hverju skrefi fyrir sig. Fyrir marga vinnustaði er þetta lítið mál, á meðan aðrir þurfa meiri tíma.
Hvernig er best að byrja?
Við mælum með því að þið kynnið ykkur aðgerðir skrefanna vel, en þær finnið þið undir Vinnugögn.
Þegar tekin hefur verið ákvörðun um þátttöku í verkefninu er hægt að skrá stofnunina til leiks með því að velja flipann Taktu skrefið hér fyrir neðan og fylla inn upplýsingar um tengilið og vinnustað. Eftir að stofnunin hefur skráð þátttöku sína fær tengiliður nánari leiðbeiningar sendar í pósti.
Hvernig er ferlið frá skráningu í verkefnið og að viðurkenningu?
Þegar stofnun hefur skráð sig til leiks er mikilvægt að setja saman teymi sem fer fyrir innleiðingu verkefnisins á vinnustaðnum. Best er ef 3-5 manns eru í teyminu. Teymið kynnir sér verkefnið vel og skoðar gátlistann sem er að finna undir Vinnugögn. Svo er hafist handa við að uppfylla aðgerðir fyrsta skrefs (eða fleiri ef vilji er til þess að taka fleiri en eitt skref í einu). Þegar teymið telur sig hafa uppfyllt yfir 90% aðgerða er gátlistinn sendur á starfsmenn Grænna skrefa sem fara yfir og gefa stig fyrir þær aðgerðir sem þeir telja uppfylltar. Þegar yfir 90% aðgerða eru uppfylltar eftir yfirferð er bókaður tími í úttekt sem fer fram á Teams. Fyrir úttekt þurfa starfsmenn Grænna skrefa að hafa móttekið myndir af helstu aðgerðum. Ef allt stenst í úttekt fær stofnunin senda viðurkenningu fyrir að hafa lokið skrefi. Við hvetjum ykkur að sjálfsögðu til að halda upp á áfangann með samstarfsfólki ykkar og nýta tækifærið til að fara yfir það sem hefur áorkast og hvað er framundan. Svo hefst teymið handa við að innleiða næsta skref!
Ef stofnunin er með fleiri en eina starfsstöð, hvernig er þá best að haga innleiðingu verkefnisins?
Við mælum með því að allar starfsstöðvar séu samstíga í verkefninu. Það skapar meiri samstöðu og samvinnu og tryggir að allt starfsfólk finni að það sé hluti af verkefninu. Auk þess eru margar aðgerðir þess eðlis að þær eru innleiddar miðlægt og því mun betra ef öll stofnunin er að vinna í verkefninu á sama tíma. Annaðhvort eru þá tengiliðir af hverri starfsstöð sem eru í samskiptum við miðlæga teymið sem fer fyrir innleiðingu verkefnisins eða þá að tengiliðir hverrar starfsstöðvar hreinlega mynda þetta miðlæga teymi.
Þarf að uppfylla allar aðgerðir hvers skrefs?
Við hvetjum að sjálfsögðu til þess að allar aðgerðir séu innleiddar í starfsemina en til að fá úttekt og síðar meir viðurkenningu þarf að uppfylla a.m.k 90% aðgerða hvers skrefs.
Hvað gerum við ef aðgerð á ekki við hjá okkur?
Ef aðgerð á ekki við, er hægt að setja útskýringu inn í skjalið um hvers vegna svo sé ekki.
Í einhverjum tilfellum er hægt að finna aðrar leiðir til að uppfylla markmiðin í samráði við starfsmenn Grænna skrefa hjá Umhverfisstofnun.
Hvernig fer úttekt fram?
Þegar gátlistinn hefur verið yfirfarinn af starfsmönnum verkefnisins og stofnun uppfyllir yfir 90% aðgerða er úttekt bókuð. Hún fer fram á Teams og fyrir hana hafa starfsmenn Grænna skrefa fengið sendar myndir af helstu aðgerðum. Í upphafi ræðir teymi Grænna skrefa hjá stofnuninni framgang verkefnisins við starfsmann Grænna skrefa og svo eru aðgerðirnar ræddar og myndar sýndar þegar við á. Eftir úttekt sendir starfsmaður Grænna skrefa úttektarpunkta á teymið og ef allt er í góðum málum fær stofnunin senda viðurkenningu.
Er í lagi að stíga fleiri en eitt skref í einu?
Heldur betur!
Hver sér um verkefnið?
Umhverfisstofnun fer með umsjón Grænna skrefa. Hafðu samband.
Hvað er umhverfisvottun?
Vara eða þjónusta sem hlotið hefur vottun samkvæmt áreiðanlegu umhverfismerki tryggir neytendum vitneskju um að hún sé það besta fyrir umhverfið og heilsu þeirra.
Áreiðanleg umhverfismerki eiga það sameiginlegt að:
- Þau eru valfrjáls leið til að markaðsetja umhverfiságæti vöru eða þjónustu
- Úttekt er sinnt af óháðum, þriðja aðila
- Viðmið eru sértæk og þróuð af sérfræðingum
- Viðmiðin byggja á lífsferilsnálgun, þ.e. gera kröfur til hráefnis, framleiðslu, notkunar og förgunar
- Viðmið eru hert á nokkurra ára fresti sem tryggir sífelldar betrum bætur á vörunni eða þjónustunni
Sjá umfjöllun um vottanir og merkingar á heimasíðu Umhverfisstofnunar, grænn.is.
Eru Grænu skrefin vottun?
Nei það eru þau ekki. Græn skref er verkefni sem stofnanir fá viðurkenningu fyrir að innleiða. Vottun krefst alltaf formlegrar staðfestingar óháðs þriðja aðila.
Koma starfsmenn Grænna skrefa í úttektir úti á landi?
Þar sem allar úttektir fara fram á Teams skiptir staðsetning ekki máli.
Hvers vegna er fimmta skrefið frábrugðið hinum fjórum?
Markmiðið með fimmta skrefinu er að tryggja að stofnunin viðhaldi öflugu umhverfisstarfi eftir að öll skref hafa verið uppfyllt. Með því að fylgja aðgerðum fimmta skrefsins geta stofnanir byggt upp umhverfisstjórnunarkerfi sem er aðlagað daglegri starfsemi. Aðgerðirnar eru einfölduð útgáfa af ISO 14001, sem þýðir að einfalt er að bæta við og fá vottað umhverfisstjórnunarkerfi.
Hvert er Grænu bókhaldi skilað?
Græna bókhaldinu er skilað inn á Gagnagátt Umhverfisstofnunar. Gott er að nota excel skjal Græns bókhalds sem vinnuskjal þar sem hægt er að skrá hjá sér forsendur og aðrar upplýsingar auk þess sem hægt er að bæta við þáttum.
Kostar að taka þátt í verkefninu?
Nei. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið fjármagnar verkefnið og er þátttaka því stofnunum að kostnaðarlausu.