Áður en hafist er handa við að skrifa loftslagsstefnu, setja sér markmið og ákveða aðgerðir er gott að hafa eftirfarandi hluti í huga.
Fyrstu skref
Grænt bókhald og losun gróðurhúsalofttegunda
Áður en hafist er handa við að móta loftslagsstefnu er nauðsynlegt að reikna losun gróðurhúsalofttegunda vegna þeirra þátta sem stefnan tekur til (sjá umfjöllun um umfang undir liðnum Loftslagsstefna) yfir eins árs tímabil, miðað er við almanaksárið. Það tímabil er notað sem viðmiðunarár sem samdráttarmarkmið miða við. Ríkisaðilum er í sjálfsvald sett hvaða ár notað er sem viðmiðunarár en mikilvægt er að það komi skýrt fram í stefnunni og að til séu haldbær gögn fyrir það ár sem ná utan um umfang stefnunnar.
Svo hægt sé að fylgjast með árangri af innleiðingu loftslagsstefnu er lykilatriði að halda utan um losun gróðurhúsalofttegunda fyrir hvert ár framvegis. Það gerir ríkisaðilum kleift að gera samanburð milli ára og forgangsraða aðgerðum eftir því hvernig losunin skiptist milli mismunandi umhverfisþátta.
Mælst er til þess að Grænt bókhald á vegum Umhverfisstofnunar sé notað til að áætla losun gróðurhúsalofttegunda. Vinnuskjal bókhaldsins er á excel formi og í það eru færðar inn upplýsingar um magn sem fást frá birgjum eða úr bókhaldi viðkomandi aðila.
Ef ríkisaðilar nota aðrar aðferðir en Grænt bókhald til að halda utan um losun frá rekstri er mælst til þess að losunarstuðlar Umhverfisstofnunar, sem innbyggðir eru í Græna bókhaldið, séu notaðir til útreikninga á losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta er gert til þess að gæta samræmis milli opinberra aðila. Ef ríkisaðilar eru að reikna losun annarra umhverfisþátta en þeirra sem skilgreindir eru í Græna bókhaldinu er mælst til þess að notast sé við viðurkennda losunarstuðla.
Skil á Grænu bókhaldi til Umhverfisstofnunar
Ríkisaðilar skila Grænu bókhaldi í Gagnagátt Umhverfisstofnunar. Skila þarf að lágmarki tölum um losun gróðurhúsalofttegunda vegna samgangna, úrgangs og orkunotkunar en skil á öðrum upplýsingum í Græna bókhaldinu eru valfrjáls. Möguleiki er á að öðrum þáttum verði bætt við síðar meir eftir því sem þekkingu fleytir fram (t.d. losun vegna matvæla). Skil þessi verða árleg og skulu upplýsingar um losun fyrra árs hafa borist í Gagnagátt Umhverfisstofnunar eigi síðar en 1. apríl ár hvert. Mælst er til þess að ríkisaðilar skili losunartölum til Umhverfisstofnunar fyrir 1. apríl 2021 vegna ársins 2020.