Hér að neðan má finna leiðbeiningar sem tilgreina hvaða atriði þurfa að koma fram í loftslagsstefnu. Röð og heiti þessara sjö atriða skiptir ekki höfuðmáli en mikilvægt er að öll komi þau fram með skýrum hætti í loftslagsstefnunni:
Framtíðarsýn
Hér er settur fram tilgangur stefnunnar, metnaður stofnunar og hvernig horft er til framtíðar.
Frekari upplýsingar: Hér setur stofnunin tóninn fyrir stefnuna í heild. Hvernig horfa loftslagsmálin við stofnuninni og hvernig hyggst hún fara fram með góðu fordæmi með að draga úr eigin losun.
Dæmi: Stjórnarstofnun stefnir á að vera til fyrirmyndar í loftslagsmálum með því að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda frá starfseminni og þeim áhrifum sem losunin hefur í för með sér. Stjórnarstofnun vill leggja sitt af mörkum til að markmiðum Parísarsamkomulagsins sé náð og taka þannig virkan þátt í baráttunni við loftslagsbreytingar.
Yfirmarkmið
Hér er sett fram markmið um heildarsamdrátt í losun frá rekstri, að stofnunin ætli að draga úr losun um X% fyrir árið X miðað við árið X.
Frekari upplýsingar: Eðlilegt er að setja sér markmið um heildarsamdrátt í losun frá rekstri. Markmiðið ætti að vera metnaðarfullt en raunsætt og taka mið af öðrum skuldbindingum, svo sem skuldbindingum ríkisins vegna Parísarsamkomulagsins, yfirlýsingu yfirvalda um kolefnishlutleysi eða öðrum skuldbindingum sem stofnunin er aðili að. Til að hægt sé að setja slíkt markmið fram þarf fyrst að fara í vinnu er snýr að útreikningum á losun gróðurhúsalofttegunda á viðmiðunarári (sjá umfjöllun um Grænt bókhald og losun gróðurhúsalofttegunda).
Dæmi: Fram til 2030 mun Stjórnarstofnun draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um samtals 40% miðað við árið 2018.
Umfang
Í stefnunni skulu koma fram helstu umhverfisþættir sem áhersla verður lögð á í aðgerðaáætlun. Ekki eru sett töluleg markmið fyrir umhverfisþætti í stefnunni sjálfri, heldur eru markmið sett fram í tengingu við aðgerðaáætlun. Stefnan skal að minnsta kosti taka til eftirfarandi umhverfisþátta og undirþátta þeirra:
- Samgöngur (flug starfsmanna, rekstur bifreiða, notkun bílaleigubíla, leigubíla eða annars konar leigusamningar)
- Önnur jarðefnaolíunotkun
- Orka (öll raforka og hitaveita sem keypt er beint eða greitt fyrir í gegnum leigusamninga)
- Úrgangur (úrgangur sem fellur til vegna starfseminnar)
Frekari upplýsingar: Mikilvægt er að stefnan taki a.m.k. til ofangreindra þátta en stofnanir geta sannarlega tilgreint fleiri þætti svo sem ferðir starfsfólks til og frá vinnu, samgöngusamninga, þætti tengda kjarnastarfsemi, innkaup og fræðslu.
Dæmi: Stefnan nær til samgangna á vegum Stjórnarstofnunar, orkunotkunar, úrgangsmyndunar og umhverfisfræðslu.
Gildissvið
Koma skal fram hvaða starfsemi fellur undir loftslagsstefnu.
Frekari upplýsingar: Mikilvægt er að það komi skýrt fram í stefnunni hvaða starfsemi hún tekur til, hvaða starfsemi hún tekur ekki til og hvers vegna.
Dæmi: Stefnan nær til allrar starfsemi Stjórnarstofnunar, bygginga, mannvirkja og framkvæmda.
Eftirfylgni
Í stefnunni skal koma fram hver er ábyrgur fyrir henni og hvernig henni verður fylgt eftir. Einnig skal tilgreina hvar hægt er að nálgast upplýsingar um framgang stefnunnar.
Frekari upplýsingar: Hér kemur fram skuldbinding um að stefnan sé uppfærð og yfirmarkmið og undirmarkmið rýnd reglulega með það að markmiði að endurskoða hvort þau séu raunhæf og metnaðarfull. Eftirfylgni og endurskoðun þarf að taka mið af niðurstöðum úr Grænu bókhaldi og þróun heildarlosunar stofnunar. Eðlilegt er að upplýsingar um framgang stefnunnar séu birtar opinberlega og skal taka fram hvar hægt er að nálgast þær.
Dæmi: Loftslagsstefna Stjórnarstofnunar er rýnd á hverju ári af stýrihóp umhverfismála og yfirmarkmið og undirmarkmið uppfærð með tilliti til þróunar í losun gróðurhúsalofttegunda á milli ára. Stefnan er samþykkt af yfirstjórn og upplýsingum um árangur aðgerða er miðlað á heimasíðu Stjórnarstofnunar.
Tenging við núverandi skuldbindingar
Tengja skal stefnuna við aðrar mögulegar skuldbindingar stofnunar á sviði loftslagsmála, ef við á.
Frekari upplýsingar: Ef stofnun hefur skrifað undir yfirlýsingar eða er aðili að innlendum eða alþjóðlegum verkefnum á sviði loftslagsmála skal tengja stefnuna við þau verkefni.
Dæmi: Stefna þessi tekur mið af skuldbindingum íslenskra stjórnvalda gagnvart Parísarsamkomulaginu og yfirlýsingu forstöðumanna stofnana Ráðsráðuneytis um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnishlutleysi.
Kolefnisjöfnun
Hér kemur fram hvernig stofnunin mun standa að kolefnisjöfnun.
Frekari upplýsingar: Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að til þess að sporna gegn loftslagsbreytingum þurfum við fyrst og fremst að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þegar ekki er hægt að draga frekar úr losun er hægt að fjárfesta í verkefnum til kolefnisjöfnunar. Mikilvægt er að kolefnisjafna reksturinn með trúverðugum og ábyrgum hætti og hefur Umhverfisstofnun birt leiðbeiningar þess efnis.
Athugið að kolefnisjöfnun er skilgreind með eftirfarandi hætti í loftslagslögum:
,,Kolefnisjöfnun: Þegar aðili hlutast til um aðgerðir annars aðila til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og/eða binda kolefni úr andrúmslofti og notar staðfestingu á slíkum samdrætti eða bindingu til að jafna út sína eigin losun að hluta eða öllu leyti.“
Það telst því ekki vera kolefnisjöfnun ef t.d. starfsmannafélag stofnunarinnar/fyrirtækisins gróðursetur tré sjálf þó að það geti vissulega verið gott hópefli og haft önnur jákvæð áhrif.
Dæmi: Stjórnarstofnun mun fyrst og fremst leggja áherslu á að draga úr losun í rekstri en einnig kolefnisjafna alla eftirstandandi losun með kaupum á vottuðum kolefniseiningum frá og með árinu 2020.
LOFTSLAGSSTEFNA GÆTI ÞVÍ LITIÐ SVONA ÚT:
Loftslagsstefna Stjórnarstofnunar
Stjórnarstofnun stefnir á að vera til fyrirmyndar í loftslagsmálum með því að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) frá starfseminni og þeim áhrifum sem losunin hefur í för með sér. Stjórnarstofnun vill leggja sitt af mörkum til að markmiðum Parísarsamningsins sé náð og taka þannig virkan þátt í baráttunni við loftslagsbreytingar.
Fram til 2030 mun Stjórnarstofnun draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um samtals 40% miðað við árið 2018. Stjórnarstofnun mun fyrst og fremst leggja áherslu á að draga úr losun í rekstri en einnig kolefnisjafna alla eftirstandandi losun með kaupum á vottuðum kolefniseiningum frá og með árinu 2020.
Stefna þessi tekur mið af skuldbindingum íslenskra stjórnvalda gagnvart Parísarsamningnum og yfirlýsingu forstöðumanna stofnana Ráðsráðuneytis um samdrátt í losun GHL og kolefnishlutleysi.
Stefnan nær til samgangna á vegum Stjórnarstofnunar, orkunotkunar, úrgangsmyndunar og umhverfisfræðslu. Stefnan nær til allrar starfsemi Stjórnarstofnunar, bygginga, mannvirkja og framkvæmda.
Loftslagsstefna Stjórnarstofnunar er rýnd á hverju ári af stýrihóp umhverfismála og yfirmarkmið og undirmarkmið uppfærð með tilliti til þróunar í losun GHL á milli ára. Stefnan er samþykkt af yfirstjórn og upplýsingum um árangur aðgerða er miðlað á heimasíðu Stjórnarstofnunar.
Hér er hægt að skoða Umhverfis- og loftslagsstefnu Umhverfisstofnunar