Verkefnið Græn skref er fyrir ríkisstofnanir sem vilja draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi sinni og efla umhverfisvitund starfsmanna. Með þátttöku í Grænum skrefum gefst stofnunum tækifæri á að innleiða öflugt umhverfisstarf með kerfisbundnum hætti undir handleiðslu sérfræðinga Umhverfisstofnunar. Verkefnið er fjármagnað af Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu og er þátttaka því stofnunum að kostnaðarlausu.
Verkefnið er einfalt og aðgengilegt og ættu allar stofnanir að geta tekið þátt. Stofnanir sem skrá sig til leiks fylgja skýrum gátlistum sem skipt er upp í fimm skref. Hvert skref inniheldur á bilinu 20-40 aðgerðir sem stofnanir þurfa að innleiða í sinn rekstur. Aðgerðirnar miða einkum að venjulegri skrifstofustarfsemi. Veitt er viðurkenning fyrir hvert skref sem stofnanir ljúka við.
Aðgerðum Grænna skrefa er skipt í 7 flokka sem ná yfir helstu umhverfisþætti í venjulegum skrifstofurekstri. Skref 1-4 innihalda aðgerðir í öllum þessum flokkum en fimmta skrefið tekur á þeim aðgerðum sem þarf að innleiða til að byggja upp umhverfisstjórnunarkerfi hjá viðkomandi stofnun.
Markmið
- Draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi ríkisins
- Efla umhverfisvitund starfsmanna
- Auka vellíðan starfsmanna og bæta starfsumhverfi þeirra
- Draga úr rekstrarkostnaði
- Innleiða áherslur í umhverfismálum sem þegar hafa verið samþykktar
- Stofnanir, ráðuneyti og annar ríkisrekstur fái viðurkenningu fyrir metnað sinn í umhverfismálum
- Stofnanir, ráðuneyti og annar ríkisrekstur geti innleitt aðgerðir á mismunandi hátt eftir umfangi og eðli starfsseminnar
- Aðgerðir stofnana í umhverfismálum séu sýnilegar
Miðlun og Stjórnun
Markmið þessa flokks er tryggja gott utanumhald og miðlun á verkefninu, bæði innan stofnunar og utan, að starfsfólk sé upplýst um umhverfismál og að stofnunin haldi Grænt bókhald. Með því að halda Grænt bókhald gefst stofnunum tækifæri á að fylgjast með árangri af umhverfisstarfi sínu og setja sér raunhæf markmið tengd þeim umhverfisþáttum sem fylgst er með.
Aðgerðir Grænu skrefanna snúa t.a.m. að því að skipa teymi sem fer fyrir innleiðingu verkefnisins, að sett séu markmið í Grænu bókhaldi um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, að niðurstöður bókhaldsins séu kynntar fyrir starfsmönnum árlega og að reglulega séu haldnir fræðslufundir um umhverfismál á vinnustaðnum.
Innkaup
Innkaup eru mikilvægur liður í því að ná árangri í umhverfismálum og er markmið þessa flokks að stofnanir innleiði umhverfisvæn innkaup. Umhverfisvæn innkaup hafa margskonar ávinning í för með sér fyrir kaupendur, seljendur og samfélagið allt. Þau draga úr umhverfisáhrifum, geta minnkað kostnað og aukið gæði ásamt því að stuðla að auknu framboði á umhverfisvænum vörum og þjónustu og hvetja til nýsköpunar. Einfaldasta leiðin til þess að innleiða umhverfissjónarmið í innkaup er að kaupa umhverfismerktar vörur og þjónustu.
Aðgerðir Grænu skrefanna snúa t.a.m. að fræðslu um umhverfismerki og lífrænar vottanir fyrir innkaupafólk, gerð innkaupagreiningar, hvatningu til birgja um að auka framboð umhverfisvænna vara og því að hugað sé að hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins í hvívetna.
Samgöngur
Markmið þessa flokks er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og loftmengun af völdum samgangna en svigrúm stofnana og almennings til að minnka losun er hvað mest í þessum flokkum. Stofnanir eru hvattar til að draga úr óþarfa ferðum og kaupum á jarðefnaeldsneyti, ýta undir umhverfisvænar samgöngur og fjölga fjarfundum.
Aðgerðir Grænu skrefanna snúa t.a.m. að því að bjóða upp á samgöngusamninga fyrir starfsfólk, setja upp góða aðstöðu fyrir hjólandi gesti og starfsmenn, auka hlut bifreiða sem ganga fyrir umhverfisvænum orkugjöfum og hvetja innlenda sem og erlenda samstarfsaðila til að sækja fundi í gegnum fjarfundarbúnað.
Rafmagn & Húshitun
Í þessum flokki er áhersla lögð á orkunýtni og orkusparnað þegar kemur að rafmagns- og heitavatnsnotkun. Þó nánast öll orka sem framleidd er á Íslandi komi frá endurnýjanlegum orkugjöfum er engin ástæða til að bruðla með hana. Á heildina litið má segja að með bættri nýtingu á innlendri orku fáum við meira út úr þeim fjárfestingum sem liggja í orkumannvirkjum landsins auk þess sem við drögum úr þörf á auknum virkjunarframkvæmdum. Hvað vinnustaði varðar, þá stuðlar orkusparnaður að fjárhagslegum sparnaði á sama tíma og hugað er að umhverfinu.
Aðgerðir Grænu skrefanna snúa t.a.m. að greiningu á orkunotkun vinnustaðarins, vitundarvakningu meðal starfsfólks um orkusparnað og að hugað sé að hámarks orkunýtni við endurnýjun á raftækjum og ljósaperum.
Flokkun & Minni sóun
Meginmarkmið þessa flokks eru að draga úr magni úrgangs sem fellur til á vinnustaðnum og að ná sem hæstu endurvinnsluhlutfalli. Til að unnt sé að minnka úrgangsmagnið á vinnustaðnum þarf að huga að því að draga úr kaupum á óþarfa og sömuleiðis vörum sem hafa mikinn úrgang í för með sér, nota fjölnota vörur, koma í veg fyrir óþarfa prentun á pappír og draga úr matarsóun.
Aðgerðir Grænu skrefanna snúa t.a.m. að því að fræða starfsmenn um flokkun úrgangs, koma á skilvirkri flokkun á vinnustaðnum, mæla matarsóun og fara í markvissar aðgerðir til að draga úr henni, gera greiningu á úrgangsmagni og ná allt að 80% endurvinnsluhlutfalli.
Viðburðir og Fundir
Í þessum flokki er lögð áhersla á að umhverfisstarf stofnana nái einnig yfir fundi og viðburði sem haldnir eru á þeirra vegum. Með því sýnum við gott fordæmi og hvetjum samstarfsaðila og gesti til að huga að bættri umgengni við umhverfið.
Aðgerðir Grænu skrefanna snúa t.a.m. að því að einungis sé boðið upp á margnota borðbúnað og hugað sé að úrgangsflokkun á viðburðum, að gestir séu hvattir til að mæta á viðburði með umhverfisvænum hætti og að umhverfisvottuð ráðstefnurými séu valin umfram önnur.
Eldhús og kaffistofur
Markmið þessa flokks er að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum sem hljótast af af neyslu matvæla og rekstri mötuneyta. Um fjórðung losunar gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu má rekja til matvælaframleiðslu og ein árangursríkasta leiðin til að draga úr þeirri losun er að auka hlut matvæla úr plönturíkinu í fæðunni. Með því að leyfa grænmeti, ávöxtum, hnetum og baunum að leika stærra hlutverk en áður getum við lækkað kolefnisspor matrétta. Einnig er mikilvægt að draga úr matarsóun eins og hægt er og versla lífræn matvæli þar sem því er við komið.
Aðgerðir Grænu skrefanna snúa meðal annars að því að auka hlutfall grænmetis og plöntupróteina í kjötréttum, auka framboð af grænkerafæði og lífrænum matvælum, mælingum á matarsóun og markvissum aðgerðum til draga úr henni, innkaupum á umhverfisvottuðum rekstarvörum í eldhúsi og notkun á margnota borðbúnaði í stað einnota.